Leiðinlega færslan
Það er búið að taka hólinn í garðinum mínum og garðinn með. Þegar ég kom heim úr vinnunni á fimmtudaginn var hálfur hóllinn farinn og allar æskuminningarnar með honum. Á þessum hól hitti ég einmitt mína bestu vinkonu aðeins 6 ára gömul í hið fyrsta sinn, vinkonu sem ég get bara alls ekki lengur kallað mína bestu vegna framkomu hennar gagnvart mér og öðrum upp á síðkastið. Á þessum hól kynntist ég einnig töfrum túttubyssunnar. Það að skjóta í fólk, þá aðallega gamalt fólk, var sko lífið á þessum tíma. Bílarnir voru líka vinsælir en ekki þegar skotið var í minn bíl, þá fór ég að gráta sem var algengt mjög á þessum tímum. En nú í dag er garðurinn eitt moldarflag sem verður þannig í heilt ár. Það á svo að gera girðingu þar sem hóllinn var núna í sumar og svo skella einum palli næsta sumar. Ég verð því í sólbaði á möl í sumar sem verður bara gaman. Ég ímynda mér bara að þetta sé sandur en ekki möl. En girðingin sem foreldrar mínir ætla að gera verður svolítið spes. Hún verður úr bárujárni sem er ekki algengt en þannig girðingu sáu þau á Kirkjubæjarklaustri síðasta sumar. Svo fyrir 2 vikum tóku þau sér rúnt upp á Klaustur og tóku myndir villt og galið af pallinum og ég get fullyrt það að þetta er ein ljótasta girðing sem ég hef séð. Hún verður altöluð um bæinn fyrir ljótleika sinn - það get ég sko lofað ykkur.
Ég fékk að vera á sláttuorf í vinnunni í dag. Það var bara alveg ágætt og dagurinn leið óvenju hratt. Vonandi verða allir dagar svona í sumar. Mér líður samt samt svolítið eins og býflugu í vímu. Ég er með svona grímu með neti, í gulu vesti og verð alltaf hálfringluð útaf bensínlyktinni sem blossar upp. Ég svíf því um allan daginn á gráu bensínskýi, ómeðvituð um allt það vonda í heiminum. Ætli ég geti komist í vímu vegna bensíngufna? Góð pæling Særún, góð pæling.
Var þetta ekki leiðinleg færsla?
mánudagur, júní 28, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli