sunnudagur, maí 28, 2006

Oj

Ég fékk saltkristallampa alla leið frá Himalayafjöllunum í stúdentsgjöf eins og stendur hér að neðan. Eins ljóshærð og ég er akkúrat þessa stundina þá varð ég bara að prófa að sleikja dæmið til að athuga hvort þetta væri ekki alveg örugglega salt. Og núna er ég öll rauð á tungunni því ég las ekki á kassann: Do not lick! Hér með ætla ég að hætta að hugsa. Og þetta er pjúra salt, pottþétt eitrað salt sem einhver fjallageit eða lamadýr hefur pissað á.


Lampinn er nú samt helvíti flottur hliðina á sebranærbuxunum mínum. Það er svo aukaatriði númer hvað nærbuxurnar eru.

Ooooooooog ég er búin að setja inn myndir frá stúdentsdeginum, sönnun mín fyrir því að ég náði.

laugardagur, maí 27, 2006

Góður dagur Herra Níels!

Særún litla bara orðin stúdent. Ég hefði séð tár á móðurvöngum þegar ég tók við skírteininu í Háskólabíó í gær sæi ég svo vel. Nei ég sé ekki svo vel. Sat eða stóð þar fremst á sviðinu í 2 tíma og þorði varla að hreyfa mig né geispa en ég gerði það nú bara samt, með lokaðan munninn að vísu. Hlustaði á gamla stúdenta og sá aðra taka við verðlaunum. Ég fékk engin verðlaun, ekki þýskuverðlaun og ekki verðlaun fyrir góða tímavörslu. Ekkert þakklæti sem maður fær. Ég hálftáraðist þegar þetta var að verða búið en táraðist mest þegar verið var að kveðja Rögnu Láru leikfimikennara. Þessi elska. Síðan var trallað í blauta myndatöku fyrir framan tilvonandi skólann minn en þar var einmitt myndin tekin sem er í Mogganum í dag og ég er á henni með þennan gapandi svip. Skemmtileg tilviljun. Mjög sátt við einkunnirnar mínar en takmark mitt var allavega að fá I. einkunn og það tókst bara svona glimrandi vel. Fór heim að gera matinn til og svona og mamma var að farast úr stressi en það var bara algjör óþarfi. Já, fór svo um morguninn í myndatöku niður í bæ og fékk að sveifla kjólnum og svona.
Veislan byrjaði og allir komu tískulega seint. Sumir alltof seint en þetta var allavega skemmtilegasta veisla sem ég hef haldið en þær eru nú ekki margar. MUN skemmtilegri en fermingarveislan mín. Líka gaman að sjá hvað margir mættu, meira að segja alla leið frá Borgarnesi og Vestfjörðum. Kæró gat samt ekki mætt því hann var að vinna. Einhver fær að sofa í sófanum.
Pabbi gerðist svo frakkur að leyfa gestunum að heyra flottasta píanósóló sem til er en það sóló er með hljómsveitinni Supertramp, sama hljómsveit og gerði The Logical Song. Þá vildi ég auðvitað leyfa þeim að heyra besta hornsóló sem til er en það er einmitt spilað af mér á þeim ágæta disk 'Pot í bumbu' með Lúðrasveit Tónlistarskóla Hafnarfjarðar frá 2000 og eitthvað. Það var bara hlegið af mér og þegar ég kom til baka af klóinu voru allir að fara. Greinilegt að píanósólóið hafi gert útslagið. Skrapp svo í veisluna hennar Bjarkar í smástund. Þegar ég kom til baka komu nágrannar mínir í heimsókn og hræddu mig með allskyns hræðilegum sögum frá Suður-Ameríku. Held samt að mamma og pabbi hafi orðið hræddust. Gott að eiga góða granna!
Jæja, fór svo í partý til hennar Ernu minnar og þar var sjúkt stuð. Dansað húllahúlla og svona. Fór svo í bæinn á Kúltúra og talaði og talaði. Var svo komin heim um 6 leytið, iljunum styttri en ég get varla labbað eftir þessi stígvél. Vaknaði svo aum í rassinum, greinilegt að ég datt og ég var búin að gleyma hvernig það var að vakna þunn. Kíkti svo á gjafirnar mínar en þær samanstóðu af hinu og þessu. Toblerone, hálsmen, ferðataska (fyrir heimsreisuna auðvitað), saltlampi frá Himalayafjöllunum, myndabók, málverk, bækur, inneign í Kringluna og svo lengi mætti telja. Dagurinn í gær var bara frábær í alla staði og vildi að hann væri bara endalaus. Systir mín tók nokkrar myndir og set ég þær inn þegar ég nenni.

mánudagur, maí 22, 2006

Já!

Ég lifði af prófin 16 og er meira en sátt. Í kvöld mun óminnishegrinn híma yfir mér og fjötra mig með fjöðrum sínum á árshátíð fyrrverandi vinnustaðar míns. Er það málið? Segjum það bara.

laugardagur, maí 20, 2006

Fyrir ári síðan

- var ég í fertugsafmæli móður minnar og drakk voða voða mikið
- burstaði SingStar. Je
- ældi ég í snakkskál heima hjá vini frænku minnar
- henti frænka mín mér út úr leigubíl á Laugarveginum. Að launum varð hún ólétt og gæti fætt á morgun. Hí á hana.
- var ég næstum því drepin þegar mér var hrint niður steinstiga þegar ég var að pissa
- engin bein brotnuðu
- lenti ég í slag við stelpu sem sakaði mig um að hafa stolið nælunni hennar
- gerði ég mistök

Ári eftir þetta

- les ég Völuspá og Hávamál
- bölva ég heiminum
- vona innilega að ragnarök komi núna


Haha. Mér finnst þetta bara svo æðisleg mynd af drukkinni móður sem hefur varla snert áfengan drykk síðan þá.

föstudagur, maí 19, 2006

Hver?

skírir barnið sitt Bruns? Bara ljótt fólk. Klúðraði munnlega enskuprófinu svo feitast áðan að það er grátlegt enda var ég við það að bresta í grát þegar ég dró einu söguna sem ég skildi bara ekki. En það er bara eitt próf eftir og það verður bara massað. Segi það já. Gott að hafa fólk sem kann að hugga mann á svona ögurstundum. Og búin að fá einkunn í sögu og þýsku. Ekki að ég vil eitthvað monta mig (ég hætti við að gerast egósentrísk með eindæmum) en hvað á maður að gera við 9,5 í þýsku? Hef ekki hugmynd.

Svo er stúdentsveislustúss í blússandi gír. Mér finnst bara ekkert gaman að ákveða veitingar. Mamma vill hafa rjómaost á öllu og ég hef ekki einu sinni smakkað rjómaost. Hljómar allavega ekki vel. Rjómi + ostur = eitthvað sjitt. Svo verður víst ávaxtaborð. Ávaxtaborð? Er það eitthvað ofan á brauð? Melónukúlur? Er það ekki bara eitthvað dónadót? Vanillubollur? Eru það ekki viðkvæmir líkamspartar?

En góðu fréttirnar eru þær að ég var að kaupa (ásamt foreldrum mínum) draumastígvélin mín. Ekki gúmmístígvél eins og sumir héldu. Koníaksbrún leðurstígvél með 6 cm hæl. Djúsí titill já. Fyrst bomsurnar eru hælaðar verð ég að æfa mig á hverjum degi því ekki vil ég vera eins og rambandi gæsamamma í Háskólabíó eftir viku. Og af því að pápi var að koma úr aðgerð á hnénu fór ég til rektors í dag og spurði hvort ekki væri hægt að panta sæti fyrir kallinn við ganginn svo hann þyrfti ekki að standa allan tímann. Rektor spurði hvort hann væri í hjólastól. Ég sagði svo ekki vera. Æi þetta er leiðinleg saga. Myndi stroka hana út ef strokutakkinn væri ekki svona langt í burtu frá hinum tökkunum.

miðvikudagur, maí 17, 2006



Falleg - fallegri - fallegust

Svo eru börnin aftur á móti ljót - ljótari - ljótust

Ég hef ákveðið að gerast egósentrísk með eindæmum.

mánudagur, maí 15, 2006

FINNIÐ VILLUNA!

Háæruverðugi viðtakandi

Laugardaginn 26. maí nk. mun ég ná þeim merka áfanga að hafa tórað í Menntaskólanum í Reykjavík í heil 4 ár. Í tilefni þess vil ég bjóða þér/ykkur að gleðjast meðan kostur er að heimili mínu sem er staðsett að Hverfisgötu 25 í Hafnarfirði. Áætlað er að teitið byrji um VII leytið (19:00) og verður allt flæðandi í góðu víni og latneskum sagnbeygingum.


Með von um
góða mætingu


Særún Ósk

------

Og ég sem sendi öllum boðskort svo ég þyrfti ekki að standa í einhverju símtalaveseni. "Já og ekki koma með krakkaormana ykkar ef þau eru ekki búin að fermast!" Þar fór það því nú þarf ég að hringja í allt liðið til að leiðrétta villuna mína. Gott að fatta svona fokkíng villur EFTIR að maður er nýbúinn að setja fokkíng kortin í fokkíng póst. Já ég er með silvianightsyndrome.

PS. Ég er ekki að bjóða þeim sem les þetta í veisluna mína. Þúst, fattiði, skiljiði.

Gætum við ekki bara verið tvíburar?






Held það nú...

Þýskuprófin bæði voru tekin í sveitta anusa og núna eru bara 2 eftir! Vúhú! En ég klára samt ekki fyrr en eftir viku! Vúhú!

föstudagur, maí 12, 2006

Ég sá

þrífættan kött í göngutúr. Hann hoppaði og skoppaði út um allt og hét Skúli. Hann vildi ekki segja mér ástæðuna fyrir fótaleysinu. Of sárar minningar sem fylgdu því. Ég kvaddi hann því með Kurt Russel og 3,14...


Skúli - væri hann kona

fimmtudagur, maí 11, 2006

Stigspróf

á þig ég gubba

mánudagur, maí 08, 2006

Nei

Latínan segir sig ekki sjálf, skrifar sig ekki sjálf heldur. Piff.

Fór í kjólaleiðangur í dag. Það er erfitt að finna sér kjól en ég held að hann sé fundinn. Já segjum það.

Fór að pæla, er búin að gera það óvenju mikið þessa dagana. Sumir segja: hálft annað ár. Í fína lagi með það en þetta er samt rosalega villandi.

1) Gæti þýtt tvö ár mínus hálft ár. Þ.e. eitt og hálft ár.
2) Gæti þýtt 2 ár plús hálft ár í viðbót. Þ.e. tvö og hálft ár
3) Gæti þýtt helmingurinn af tveimur árum, sem sagt eitt ár en það væri því lítill tilgangur í að nota þetta orðalag. Styttra að segja bara: eitt ár, og ekki eins villandi.

Nei bara smá pæling sko.

Ég kann formúlu til að reikna út hvað sólarljós er lengi að koma til jarðarinnar. Eitthvað sem maður lærir bara í stjarneðlisfræði skiluru. Man hana ekki alveg en það tekur allavega 8,19 mínútur fyrir ljósið að drattast til jarðarinnar. Þannig að við erum alltaf 8,19 mínútur á eftir sólinni í öllu. Ef sólin springur þá höfum við heilar 8,19 mínútur til að gera allt sem við viljum gera á okkar síðustu sekúndum á þessari jörð. Þar hafið þið það. Nú er bara að byrja á to-do-listanum "Hvað skal gjöra á 8,19 mínútum eftir að sólin springur." Tímamæla alla kossa og fullnægingar eða hvað sem þið viljið gera á 8,19 mínútum. Góða skemmtun.

laugardagur, maí 06, 2006

Nýjasti aulabrandarinn:

Latínan segir sig ekki sjálf

Vill einhver útskýringu eða?


Ég var líka að búa til súra myndasögu, jafn súr og ég er þessa dagana.

fimmtudagur, maí 04, 2006

Fokk!

Er í alltof fúlu skapi til að blogga eitthvað af viti og þess vegna ætla ég bara að blogga um það hvað ég er í fúlu skapi. Sem sagt:

-Fullt af leiðinlegu fólki alltaf að bögga mig
-Foreldrar mínir geta ekki hætt að stríða mér
-Systir mín hendir í mig grænmeti við matarborðið
-Hundurinn minn vill ekki hlýða mér og pissaði á mig um daginn
-Hef ekki tíma til að gera neitt með neinum annað en að læra
-Enginn svarar sms-unum mínum
-Mér er illt í bakinu
-Stigspróf í næstu viku
-Kann enga tónstiga af því þeir vilja ekki síast inn í gatasigtið sem hausinn minn er
-Spænskan í fokki
-Líka latínan
-Er með hælsæri dauðans eftir hassskóna mína
-Hef ekki tíma til að kaupa mér stúdentsföt
-Enginn fattar mig
-Var að byrja á túr
-Pirruð af því að það er fullt af öðrum hlutum sem eru að bögga mig en ég man þá ekki
-Er iggja meigidda!
-Og það sem verst er: Enginn vill vera plata vikunnar

Takk

þriðjudagur, maí 02, 2006

Gefum frat í orkudrykki!

Þar sem ég var í mikilli tímaþröng í gær vegna Macbeths nokkurs Shakespearessonar ákvað ég að taka hraðbrautina á þetta og skundaði í 10-11 um eitt leytið í Magic-leit. Ég var ekki sú eina í þeirri leit því allir voru að kaupa Magic. Uppi varð fótur og fit þegar upp komst að allir Töfrar voru uppurnir innan veggja búðarinnar og næstu Töfrar kæmu ekki fyrr en daginn eftir. Þá var bara eitt í stöðunni: hringja í Galdrakarlinn í Oz en hann var í sturtu þannig að hann gat ekki reddað mér. Neyddist til að kaupa einhvern Söfnuð (e. Cult) á 200 kall stykkið. Bara bankarán. Þar sem ég er amatör í orkudrykkjadrykkju og andvökunóttum, drakk ég bara 2 dósir á innan við klukkutíma og var bara sátt. Fór svo að líða hálf skringilega, titraði öll og bara eitthvað sjitt. Hringdi þá í meistarann í þessum málum og hann bara hló að mér og sagði mig vera kjánaprik.

Þar sem ég gat ekki sofnað bjó ég til geðveikan aulabrandara. Hann Atli sæti er alltaf að læra sögu á næturna þannig að ég sendi honum eftirfarandi sms: "Sko, af því að þú heitir Atli og ert að læra sögu, þá geturðu sagt að þú sért að 'sögu-atlast' Haha!" Svo hló ég eins og vitleysingur af minni eigin "fyndni" í langan tíma þangað til Atli hringdi og skildi ekkert í þessum brandara. Hann veit ekki einu sinni hvað sögu-atlas er og þá var brandarinn eiginlega ónýtur.

Minnir mig á rosalega lélegan brandara sem ég bjó til á úrslitakeppninni í Morfís. Ætti ekki að vera að segja hann bara svona til að verja orðspor mitt en what the hell! Sko, það var alltaf svona pallur eða kollur sem átti að stíga á upp í pontu ef fólk sá ekki neitt. Og ég svona: "Hey, þetta er kollur. Hár-kollur." Og svo hló ég innan í mér það sem eftir var af keppninni en brandarinn varð til í fyrri umferð. Spurning hvenær brandarabókin kemur í verslanir...

Núna ætla ég að klára söguna frá því þarna lengst uppi. Það endaði á því að ég sofnaði ekki fyrr en kl. 5 í nótt og vaknaði kl. 7 til að læra og fór í prófið kl. 9. Og svo er ég að fara í atvinnuviðtal kl. 14:30 í Garðabæ og get núna ekkert sofnað aftur þannig að ég verð bara rosalega mygluð í viðtalinu sem verður bara hresst!

Boðsköp: Drekka orkudrykki í hófi, ekki senda kærastanum sínum heimatilbúna aulabrandara í orkudrykkjavímu og ekki deila aulabröndurum með öðrum, hvað þá á blogginu sínu. Takk.


Sögu Atlas fyrir mýs?

PS. Ég ætla að vera ýkt mikið egó þessa vikuna og því er ÉG plata vikunnar þegar ég var 5 ára . Þeir sem hafa áhuga á að vera næsta plata kommenta bara og sé til hvað ég get gert í því. Unsex me here!