Góður dagur Herra Níels!
Særún litla bara orðin stúdent. Ég hefði séð tár á móðurvöngum þegar ég tók við skírteininu í Háskólabíó í gær sæi ég svo vel. Nei ég sé ekki svo vel. Sat eða stóð þar fremst á sviðinu í 2 tíma og þorði varla að hreyfa mig né geispa en ég gerði það nú bara samt, með lokaðan munninn að vísu. Hlustaði á gamla stúdenta og sá aðra taka við verðlaunum. Ég fékk engin verðlaun, ekki þýskuverðlaun og ekki verðlaun fyrir góða tímavörslu. Ekkert þakklæti sem maður fær. Ég hálftáraðist þegar þetta var að verða búið en táraðist mest þegar verið var að kveðja Rögnu Láru leikfimikennara. Þessi elska. Síðan var trallað í blauta myndatöku fyrir framan tilvonandi skólann minn en þar var einmitt myndin tekin sem er í Mogganum í dag og ég er á henni með þennan gapandi svip. Skemmtileg tilviljun. Mjög sátt við einkunnirnar mínar en takmark mitt var allavega að fá I. einkunn og það tókst bara svona glimrandi vel. Fór heim að gera matinn til og svona og mamma var að farast úr stressi en það var bara algjör óþarfi. Já, fór svo um morguninn í myndatöku niður í bæ og fékk að sveifla kjólnum og svona.
Veislan byrjaði og allir komu tískulega seint. Sumir alltof seint en þetta var allavega skemmtilegasta veisla sem ég hef haldið en þær eru nú ekki margar. MUN skemmtilegri en fermingarveislan mín. Líka gaman að sjá hvað margir mættu, meira að segja alla leið frá Borgarnesi og Vestfjörðum. Kæró gat samt ekki mætt því hann var að vinna. Einhver fær að sofa í sófanum.
Pabbi gerðist svo frakkur að leyfa gestunum að heyra flottasta píanósóló sem til er en það sóló er með hljómsveitinni Supertramp, sama hljómsveit og gerði The Logical Song. Þá vildi ég auðvitað leyfa þeim að heyra besta hornsóló sem til er en það er einmitt spilað af mér á þeim ágæta disk 'Pot í bumbu' með Lúðrasveit Tónlistarskóla Hafnarfjarðar frá 2000 og eitthvað. Það var bara hlegið af mér og þegar ég kom til baka af klóinu voru allir að fara. Greinilegt að píanósólóið hafi gert útslagið. Skrapp svo í veisluna hennar Bjarkar í smástund. Þegar ég kom til baka komu nágrannar mínir í heimsókn og hræddu mig með allskyns hræðilegum sögum frá Suður-Ameríku. Held samt að mamma og pabbi hafi orðið hræddust. Gott að eiga góða granna!
Jæja, fór svo í partý til hennar Ernu minnar og þar var sjúkt stuð. Dansað húllahúlla og svona. Fór svo í bæinn á Kúltúra og talaði og talaði. Var svo komin heim um 6 leytið, iljunum styttri en ég get varla labbað eftir þessi stígvél. Vaknaði svo aum í rassinum, greinilegt að ég datt og ég var búin að gleyma hvernig það var að vakna þunn. Kíkti svo á gjafirnar mínar en þær samanstóðu af hinu og þessu. Toblerone, hálsmen, ferðataska (fyrir heimsreisuna auðvitað), saltlampi frá Himalayafjöllunum, myndabók, málverk, bækur, inneign í Kringluna og svo lengi mætti telja. Dagurinn í gær var bara frábær í alla staði og vildi að hann væri bara endalaus. Systir mín tók nokkrar myndir og set ég þær inn þegar ég nenni.
laugardagur, maí 27, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli