Überhress!
Nei eiginlega ekki. Var að fá sorgarfréttir. Fréttir sem munu hafa mikil áhrif á líf mitt. ÞAÐ ER HÆTT AÐ FRAMLEIÐA MANGÓ OG APRÍKÓSU BIOMJÓLK! Mín helsta uppistöðufæða er dáin. Farin og kemur aldrei aftur. Er einhver ástæða til að lifa áfram?!?! NEI! Hvar er byssan? Vatnsbyssan? Ég mun sko senda harðorðað bréf í Velvakanda. MS mun fá að finna fyrir því. Og hvað er það að setja á markaðinn vanillubiomjólk í staðinn fyrir þá bestu? Ég er svo frústreruð að ég á ekki til aukatekið orð. Best að slútta þessu áður en ég segi eitthvað sem ég mun sjá eftir.
fimmtudagur, september 29, 2005
mánudagur, september 26, 2005
Krank
Þegar að maður er veikur er ekkert betra en að hlusta á tónlist. Fann þessa yndislegu tónlist á rokk.is sem vekur bara góðar minningar. Sláttur, Capone og vondulagakeppnin. Held að ég hafi ekki hlegið jafnmikið og þegar að ég heyrði þetta lag. Deginum var hreinlega bjargað og ég þurfti að hætta að slá um tíma fyrir hlátri.
Tilraunin
Oft hef ég verið beðin um númerið mitt af karlkynsviðskiptavinum Hereford en aldrei gert það. Ákvað samt að gera smá tilraun núna um helgina og lét einn fá það því hann var svo mikill séntilmaður og alveg bráðmyndarlegur. Ætlaði að athuga hvort hann myndi nú hringja og viti menn, í gær hringdi hann. Mér brá ekkert smá en ákvað samt að skella nú ekki á greyið manninn. Hann tjáði mér að það sem heillaði hann við mig, var þegar að hann var á Hereford með vinum sínum og spurði hvað ég væri ung. Ég heyri ekki vel og spurði því til baka: "Ha, þung?" Svo að þetta færi nú ekki lengra, ákvað ég að segja manninum að ég þyrfti að fara að sinna henni Boggu minni sem vildi fá brjóstamjólkina sína. Hann lætur mig því vonandi í friði. En tilraunin tókst engu að síður. Sumir hringja, aðrir ekki. En ég geri þessa tilraun aldrei aftur og mæli ekki með henni.
Birt af Særún kl. 15:36 0 tuðituðituð
föstudagur, september 23, 2005
Einu sinni
vildi ég alltaf vera strákur. Það var eiginlega bara ein ástæða fyrir því: svo ég gæti pissað standandi. Hafði oft lent í því að pissa á buxurnar þegar að ég pissaði á hækjum mér út í móa á mínum yngri árum. Svo skildi ég aldrei hvað strákar gera þegar að þeir þurfa að pissa og kúka í einu. a) Pissa standandi og svo þegar að lollinn er farinn að ulla, þá setjast strákarnir á setinu. b) Gera bara bæði sitjandi og þá fer allt út um allt. Ég hef ekki enn fundið svarið við þessu og upp á síðkastið hef ég ekki mikið verið að leita. Ég skal bara leyfa karlpeningnum að hafa þetta útaf fyrir sig. Nema að einhver þarna úti vilji endilega tjá sig um þetta. Það er víst tjáfrelsi á þessu skeri. En núna er ég bara ánægð með að vera stelpa, jafnvel þótt ég þurfi að pissa út í móa og að Rósa frænka komi mánaðarlega í heimsókn. Það er allavega skárra en að þurfa að glíma við ofangreint vandamál.
Birt af Særún kl. 15:45 0 tuðituðituð
miðvikudagur, september 21, 2005
Klukk!
Ég var klukkuð. Var í lögg' og bófa. Nei smá grín. Ég hef reyndar séð tvær útgáfur af þessu. Hinsvegar að ég eigi að skrifa 5 staðreyndir um mig sem enginn veit og svo bara venjulega 5 staðreyndir. Af því að ég hef alltaf átt erfitt með að ákveða mig ætla ég bara að gera bæði. Bæði er betra. Eins og allir vita þá hef ég líka svo gaman af því að tala um sjálfa mig.
FIMM STAÐREYNDIR UM MIG SEM ENGINN ANNAR VEIT (FYRIR ÞETTA):
1. Þegar að ég var lítil borðaði ég aldrei grænmeti. Leit líka út eins og næpa, skjannahvít og að detta í sundur úr hor. Svo fór ég að borða súkkulaðikrem og varð feit en náði því af mér með því að lifa bara á gulrótum. Núna elska ég gulrætur, kál og gúrku og er að reyna að venja mig á að borða tómata og papriku. Tómatarnir eru nú að koma en seint kemur paprikan.
2. Þegar að ég var lítil þá pissaði ég alltaf í mig. Allt sem ég drakk rann bara beint niður og ég fann ekki fyrir neinu. Svona var þetta til 6 ára aldurs og sem betur fer er þetta hætt núna. Eða það ætla ég rétt að vona.
3. Besti maturinn minn eru stappaðar kartöflur og brún sósa. Allir í fjölskyldunni vita þetta og í matarboðum er alltaf búið að taka frá margar kartöflur fyrir mig því ekki er ég nú að fara að stappa saman brúnuðum kartöflum og sósu. Oj.
4. Engin stelpa veit þetta en nokkrir strákar: ég er sjúkt góður kyssari. Ég er ekkert að grínast með þetta því að mér hefur verið sagt af mörgum gaurum að ég hafi náðargáfu á þessu sviði. "Ó Særún, djöfulli ertu góð!" Já það margborgar sig að æfa tvöfalda tungu á hverjum degi. Sú þrefalda er í bígerð.
5. Mig dreymir einu sinni í viku að ég sé að labba fram af bryggju. Þá vakna ég með svona "fall"tilfinningu í maganum og það með látum. Stundum öskra ég og þeir sem sofa nálægt mér eiga það til að gera það líka. Oftast gerist þetta á fimmtudögum.
Þetta var nú skemmtilegt en allt satt. Sérstaklega þetta nr. 4.
FIMM VENJULEGAR STAÐREYNDIR UM MIG:
1. Ég heiti Særún Ósk og það er mikil pæling á bakvið nafnið mitt sem kannski ekki allir vita. Ömmur mínar heita Sæbjörg og Sigrún. Ef þessu feitletraða er púslað saman fæst nafn mitt. Sniðugt. Ósk er af því að mamma gerðist væmin og sagði áður en hún kreisti mér út: ,,Ég óska að barnið verði með 10 tær og 10 fingur."
2. Ég er í skóla. MR á síðasta ári. Ég vil ekki hætta í MR og veit ekki hvað ég ætla að gera eftir hann. Ég held að það sé bara ekkert líf eftir MR. Ég er á fornmálabraut II sem er bara stálið. Latínan, jájá. Þetta kemur bara í ljós.
3. Ég er í vinnu. Vinnu á Hereford. Það er spes núna eftir að Oddný fór til Ítalíu. Svo eru allir að hætta og ekki get ég verið eini þjónninn þarna. Kannski málið að skipta um vinnu, ha.
4. Fjölskyldan mín er voða kammó. Pabbi, mamma, systir og hundur. Já og hamstur. Pabbi er rafvirki og í gær kastaði hann kjötfarsbollu í hausinn á mér af því að ég vildi frekar borða pasta en kjötfars. Í hans augum er pasta pappi. Við erum rosalega lík og er ég að sjá það núna fyrst. Samt er búið að segja mér það frá blautu barnsbeini og annaðhvort var ég of ung til að skilja það eða of þrjósk. Alveg eins og pabbi. Mamma mín er leikskólakennari og rosalega spes. Hún er sprelligosi. Í gær var ég til dæmis að lesa í hjónarúminu og klukkan var 9, sem sagt háttatíminn hennar. Þá byrjaði hún að hoppa í rúminu svo að ég myndi fara. Henni tókst það ekki, ég fór bara að hoppa með henni og þá sagði hún mér að hætta svo við myndum ekki brjóta rúmið. Systir mín spilar á fiðlu og er í 9. bekk. Var að kaupa sér nýja Nikita peysu og ég má sko ekki fá hana lánaða. Hundurinn er loðinn og gamall. Hann á það til að klessa á hurðir og uppáhaldsmaturinn hans eru pulsur. Hamsturinn er hvítur og sefur á daginn. Á næturnar hleypur hann í hlaupahjólinu sínu.
5. Ég var örugglega Hans klaufi í fyrra lífi því ég er alltaf í jörðinni. Kannski er það af því að ég er svo jarðbundin. Haha! En ég er aldrei marblettalaus og ef ég sé marblett sem ég man ekki eftir að hafa fengið, þá veit ég alveg hvar ég fékk hann. Í miðbæ Reykjavíkur á annaðhvort föstudags- eða laugardagskvöldi.
Upptalningu lokið. Finnst ykkur ekki bara eins og að þið þekkið mig inn og út? Þá er að klukka einhverja fimm. Ég ætla að velja... Rósu Birnu, Hildigunni, Þorstein Skúl, Gyðu og Þóreyju. Gangi ykkur vel kæra fólk. Enginn toppar mig!
Birt af Særún kl. 22:09 0 tuðituðituð
mánudagur, september 19, 2005
Afmæli
Í dag á ég afmæli. Fimm ár síðan að ég tábrotnaði í Þórsmörk í 9. bekk. Systir mín var að fara í svona ferð áðan og kemur það mér ekki á óvart ef hún kemur líka heim með brotna tá. Ég var svo gáfuð að vaða yfir jökulá á tánum og sparkaði í stein. Við vorum í einhverjum svaka göngutúr og áttum nokkra kílómetra eftir og einnig slatta af ám til að vaða yfir. Þá var ég þónokkuð mörgum kílóum þyngri en ég er núna og þurfti íslenskukennarinn minn að halda á mér á bakinu yfir hinar árnar. Svo var ég svo illt í maganum af hossinu að ég var alltaf að prumpa og það framan í kennarann. Þá skammaðist ég mín. Svo þurfti ég að labba á hælnum til baka upp kletta og læti. Svo trúði mér enginn, sögðu bara að ég væri að plata. Fór svo á slysó þegar að ég kom heim og þá bara táin brotin í tvennt! Hún hefur aldrei verið söm við sig síðan þá. Alltaf helaum og leiðinleg. Henni að kenna að ég varð að hætta í fótbolta. Tær sökka.
Fór í tvítugsafmæli á laugardaginn. Það var sveitt. Ennþá sveittara var samt FH ballið sem ég fór á eftir það. Sá eiginlega bara fullt gamalt fólk. Það sveittasta af öllu var samt þegar að ég beið í klukkutíma eftir leigubíl (sem kom aldrei) í strætóskýli og þegar að fólk labbaði framhjá vildi það alltaf endilega láta mig vita að strætó væri hættur að ganga. Þá hlógum við öll dátt. Þessar elskur.
Ég hef ákveðið að gerast sambandsráðgjafi. Ég er búin að vera í því síðastliðnu daga að gefa ráð í málum ásta og hefur það bara tekist nokkuð vel hingað til. Hef ekki ennþá fengið morðhótun eða egg inn um gluggann. En það má líkja mínum ástarmálum við mín fatainnkaup. Ég er góð í að velja föt á aðra en mig og svo þegar að það kemur að því að ég velji á mig, þá endar það bara í endemis vitleysu. Enda sést það á löfrunum sem ég geng í. Ekkert nema spandex og aftur spandex. Gerviefni.
Fór á fund með vesslingum í gær vegna MR-ví dagsins en við í Loka gefum út sameiginlegt blað með þessu fólki ef fólk mætti kalla. Þetta voru nú svo sem ágætis krakkar en þegar að þau héldu að tóga væri eitthvað svona Jesú-dæmi, duttu allar lýs úr höfði mér. Svo brá mér þegar að stelpurnar fengu sér eiginlega allar kakó og möffins. Ég hélt að þetta lifði bara á bússtbarnum í Kringlunni. Ætli maður verði ekki að gefa þessum greyjum séns.
Birt af Særún kl. 16:31 0 tuðituðituð
laugardagur, september 17, 2005
Jájá
Ég er búin að jafna mig frá því að ég tjáði mig síðast á þessu blessaða bloggi. Ekki hafa áhyggjur. Það sem hjálpaði mér mest var bekkjarhittingurinn í gær og verslunarferðin í dag. 6.A hittist í gær hjá henni Gretu og við borðuðum góðan mat, spjölluðum, hlógum, horfðum á Eurotrip og hlógum ennþá meira. Hlógum mikið að þeirri tilhugsun að tveir af kennurum okkar væru að rugla saman reitum. Já ég dýrka bekkinn minn. Verlsunarferðin í dag var líka vel heppnuð. Oft kaupir maður það flottasta þegar maður er einn og að flýta sér. Náði allavega að eyða 20.000 kjelli á hálftíma sem er nýtt met. Keypti kjól og það eru ár og dagar síðan það gerðist síðast. Hann er fjólublár og glansar. Fór samt ekki í honum í áttræðisafmælið hans afa áðan. ALltof fínn fyrir það. Ég sá í afmælinu hvað fjölskyldan mín er lítil. Ég er eina barnabarnið á mínum aldri og þessvegna leiddist mér bara. Fór þá bara í Smárann. Á morgun þarf ég svo að hitta einhverja krakka úr vessló. Ullabjakk.
Annað tölublað Loka kemur svo út á mánudaginn. Betra blað en síðast ef ég á að segja eins og er. Fullt af myndum og rugli.
Birt af Særún kl. 19:17 0 tuðituðituð
þriðjudagur, september 13, 2005
Lífið
er eins og líkamsþyngdin. Upp og niður, upp og niður. Engin leið að stjórna því. Það er merkilegt hvursu fljótt einhver getur bara horfið úr lífi manns. Það heyrist bara 'púff' og hann eða hún er farin fyrir fullt og allt. Oft þarf lítið til að þau fari. Eggin voru linsoðin, lakið er blautt, geisladiskurinn rispaður. Eintómir smámunir. Þeir sem þekkja mig hvað best, vita alveg hvað ég er að meina. Ættu allavega að gera það. Svo er til visst fólk sem neitar stundum að líta á staðreyndirnar. Ég er í þeim hópi. Ég vil bara trúa því góða um fólk og hundsa það illa. Það kemur mér oft um koll og endar með því að ég særist í litla hjartanu mínu. Ég vil flýja vandamálið, neita að það sé til. Frekar vil ég laga það og vona að tíminn lækni allt. Hvursu heimsk var ég? Þetta er bara rugl! Ég á það til að treysta fólki of mikið. ,,Hvaða hvaða, hann er ekkert að dúlla sér með öðrum stelpum. Hvurslags endemis vitleysa!" En hvernig get ég verið viss? Hann neitar því. Þýðir það þá að ég á bara að trúa honum? Hingað til hef ég gert það en ekki lengur. Ég vil breyta um lífsviðhorf. Ekki horfa yfir hlutina, heldur beint á þá. Sjá staðreyndirnar. Bráðum verð ég eins og ný Særún. Skínandi Særún. Laus við djamm og tjútt. Já krakkar, svona er lífið. Ein stór baðvog.
Birt af Særún kl. 19:37 0 tuðituðituð
sunnudagur, september 11, 2005
Nafnið
Jórunn minnir mig alltaf á hest. Skondið.
Þessi heitir víst Jórunn. Hún borðar kannski eins og hestur. Hnjahnja.
Birt af Særún kl. 21:20 0 tuðituðituð
föstudagur, september 09, 2005
Nú hlæ ég
af heimsku minni. Ég átti að vita að það er ekki gáfulegt að drekka hvítvínsflösku, bjór og fullt af gajol staupum. Dauðaherbergið á Broddvei er hvítt með stólum upp við vegginn. Svona fyrir forvitna. Það er líka vont að detta um tógað sitt. Ég er með STÓR ummerki um það. Það er líka ekkert gáfulegt að fara í leigubíl með busastrák sem fer upp í Grafarvog. Svo er það mjög óheppilegt að forvarnarfulltrúinn í skólanum er íslenskukennarinn minn. Hlakka til að fara í næsta tíma. Í morgun fann ég svo óopnaða Breezer flösku fyrir framan húsið mitt. Það getur vel verið að ég eigi hana.
Birt af Særún kl. 16:45 0 tuðituðituð
þriðjudagur, september 06, 2005
Oooo
Ég vildi að ég væri orðin tvítug því þá gæti ég skráð mig í Ástarfleyið. Nú bölva ég foreldrum mínum fyrir að hafa ekki getið mig fyrr.
Birt af Særún kl. 20:32 0 tuðituðituð
mánudagur, september 05, 2005
Er þér sama þótt ég Loki?
Já, fyrsta tölublað Loka Laufeyjar kom út í dag í dagblaðaformi. Ég hef ekki heyrt neina slæma hluti um blaðið bara góða og vona að það haldist þannig. En ef einhver þarna úti vill setja eitthvað út á snepilinn, þá skal hinn sá sami gera það hér eða þegja ellegar. Við erum allavega mjög ánægðar með hann. Það sem ég skrifaði er kannski pínku gróft en það er það sem selur. Ég meina, hvað er gróft við það að vera stórhreðja?
Ég er í mjög skrýtnu skapi. Kannski af því að ég er að hlusta á Shame On You með Thomasi Thordarsyni hinum hálfíslenska. Ég vil bara dansa tangó eða cha-cha. Læt það samt bíða.
Busaballið nálgast eins og óð fluga. Sem sagt eins og geitungur. Sjötti A bauð þriðja A í fyrirpartí en ég finn það á mér að þetta sé afar sítrónusúr bekkur. Einn bólugrafinn gaur með krullur sagði meira að segja: ,,Ég kemst ekki, (prump) ég er að vinna." Hvað er málið með það? Ég freta nú bara á svona fólk!
Fór á Strákana okkar með kvikmyndagerð í gær. Alveg hægt að hlæja að þessari mynd en hún er aðeins í grófari kantinum. Fullt af typpum, káfi og rassítökum. Ekki fyrir viðkvæma. Leikstjóri myndarinnar kom svo í tíma í dag og hann var svo feiminn eitthvað. Langaði mest að knúsa hann en hrædd um að brjóta hann, ákvað ég að sleppa því. Hann er nefnilega bara skinn og bein greyið maðurinn.
Birt af Særún kl. 16:43 0 tuðituðituð
laugardagur, september 03, 2005
Geðveikt fyndið eitthvað!
Fór á Gaukinn í gær í fyrsta skipti síðan Júróvisjón-kvöldið fræga. Það var nú örlagaríka kvöldið maður. Fór á blössfyllerí, mamma ansi tipsy á kantinum, mér var hrint niður stiga, var sökuð um næluþjófnað, lenti í slag, hösslaði svo feitast og var hössluð svo feitast. Þá var hún Oddný líka með mér en ekki núna. Hún flaug til Ítalíu í gær og verður þar í rúmt ár. Helvítis tíkin! En ég á eftir að sakna hennar svo mikið. Búhú!
Ég er komin með svo mikla bjórbumbu. Ein Bierbauch. Un vientre de cerveza. Pancia della birra. Bier buik.
Ég hló svo mikið í gær en ég veit ekki af hverju. Kannski af því að ég sendi einhverjum í símanum mínum 8 tóm sms. Nei. Ef til vill af því að ég var kosin ritari 6. bekkjarráðs með því að kasta pening. 4 embætti þetta árið, þakka þér. Nei. Æi ég man ekki.
Birt af Særún kl. 14:06 0 tuðituðituð