miðvikudagur, september 21, 2005

Klukk!

Ég var klukkuð. Var í lögg' og bófa. Nei smá grín. Ég hef reyndar séð tvær útgáfur af þessu. Hinsvegar að ég eigi að skrifa 5 staðreyndir um mig sem enginn veit og svo bara venjulega 5 staðreyndir. Af því að ég hef alltaf átt erfitt með að ákveða mig ætla ég bara að gera bæði. Bæði er betra. Eins og allir vita þá hef ég líka svo gaman af því að tala um sjálfa mig.

FIMM STAÐREYNDIR UM MIG SEM ENGINN ANNAR VEIT (FYRIR ÞETTA):

1. Þegar að ég var lítil borðaði ég aldrei grænmeti. Leit líka út eins og næpa, skjannahvít og að detta í sundur úr hor. Svo fór ég að borða súkkulaðikrem og varð feit en náði því af mér með því að lifa bara á gulrótum. Núna elska ég gulrætur, kál og gúrku og er að reyna að venja mig á að borða tómata og papriku. Tómatarnir eru nú að koma en seint kemur paprikan.

2. Þegar að ég var lítil þá pissaði ég alltaf í mig. Allt sem ég drakk rann bara beint niður og ég fann ekki fyrir neinu. Svona var þetta til 6 ára aldurs og sem betur fer er þetta hætt núna. Eða það ætla ég rétt að vona.

3. Besti maturinn minn eru stappaðar kartöflur og brún sósa. Allir í fjölskyldunni vita þetta og í matarboðum er alltaf búið að taka frá margar kartöflur fyrir mig því ekki er ég nú að fara að stappa saman brúnuðum kartöflum og sósu. Oj.

4. Engin stelpa veit þetta en nokkrir strákar: ég er sjúkt góður kyssari. Ég er ekkert að grínast með þetta því að mér hefur verið sagt af mörgum gaurum að ég hafi náðargáfu á þessu sviði. "Ó Særún, djöfulli ertu góð!" Já það margborgar sig að æfa tvöfalda tungu á hverjum degi. Sú þrefalda er í bígerð.

5. Mig dreymir einu sinni í viku að ég sé að labba fram af bryggju. Þá vakna ég með svona "fall"tilfinningu í maganum og það með látum. Stundum öskra ég og þeir sem sofa nálægt mér eiga það til að gera það líka. Oftast gerist þetta á fimmtudögum.

Þetta var nú skemmtilegt en allt satt. Sérstaklega þetta nr. 4.

FIMM VENJULEGAR STAÐREYNDIR UM MIG:

1. Ég heiti Særún Ósk og það er mikil pæling á bakvið nafnið mitt sem kannski ekki allir vita. Ömmur mínar heita björg og Sigrún. Ef þessu feitletraða er púslað saman fæst nafn mitt. Sniðugt. Ósk er af því að mamma gerðist væmin og sagði áður en hún kreisti mér út: ,,Ég óska að barnið verði með 10 tær og 10 fingur."

2. Ég er í skóla. MR á síðasta ári. Ég vil ekki hætta í MR og veit ekki hvað ég ætla að gera eftir hann. Ég held að það sé bara ekkert líf eftir MR. Ég er á fornmálabraut II sem er bara stálið. Latínan, jájá. Þetta kemur bara í ljós.

3. Ég er í vinnu. Vinnu á Hereford. Það er spes núna eftir að Oddný fór til Ítalíu. Svo eru allir að hætta og ekki get ég verið eini þjónninn þarna. Kannski málið að skipta um vinnu, ha.

4. Fjölskyldan mín er voða kammó. Pabbi, mamma, systir og hundur. Já og hamstur. Pabbi er rafvirki og í gær kastaði hann kjötfarsbollu í hausinn á mér af því að ég vildi frekar borða pasta en kjötfars. Í hans augum er pasta pappi. Við erum rosalega lík og er ég að sjá það núna fyrst. Samt er búið að segja mér það frá blautu barnsbeini og annaðhvort var ég of ung til að skilja það eða of þrjósk. Alveg eins og pabbi. Mamma mín er leikskólakennari og rosalega spes. Hún er sprelligosi. Í gær var ég til dæmis að lesa í hjónarúminu og klukkan var 9, sem sagt háttatíminn hennar. Þá byrjaði hún að hoppa í rúminu svo að ég myndi fara. Henni tókst það ekki, ég fór bara að hoppa með henni og þá sagði hún mér að hætta svo við myndum ekki brjóta rúmið. Systir mín spilar á fiðlu og er í 9. bekk. Var að kaupa sér nýja Nikita peysu og ég má sko ekki fá hana lánaða. Hundurinn er loðinn og gamall. Hann á það til að klessa á hurðir og uppáhaldsmaturinn hans eru pulsur. Hamsturinn er hvítur og sefur á daginn. Á næturnar hleypur hann í hlaupahjólinu sínu.

5. Ég var örugglega Hans klaufi í fyrra lífi því ég er alltaf í jörðinni. Kannski er það af því að ég er svo jarðbundin. Haha! En ég er aldrei marblettalaus og ef ég sé marblett sem ég man ekki eftir að hafa fengið, þá veit ég alveg hvar ég fékk hann. Í miðbæ Reykjavíkur á annaðhvort föstudags- eða laugardagskvöldi.

Upptalningu lokið. Finnst ykkur ekki bara eins og að þið þekkið mig inn og út? Þá er að klukka einhverja fimm. Ég ætla að velja... Rósu Birnu, Hildigunni, Þorstein Skúl, Gyðu og Þóreyju. Gangi ykkur vel kæra fólk. Enginn toppar mig!

Engin ummæli: