En hvar eru hin?
Dótturafkvæmi krakkanna í Beverly Hills eru fullorðnu merðirnir í Melrose Place sem tröllriðu kananum og velunnurum þeirra á árunum 1992-1999. Á venjulegum degi í íbúðakjarnanum gerist oftar en ekki þetta: morð, framhjáhald, bakstungur, hafnanir, lygar, upprisa, peningaskandalar, svikamyllur, alkóhólismi og svo lengi mætti telja. Góð formúla að góðum þáttum segja sumir. Persónur systkinaþáttanna fléttast þó saman á furðulegan hátt. Eiginlega á of furðulegan hátt. En hvar er þetta fólk nú?
Andrew Shue - Billy Campell
Þá: Í byrjun þáttanna var Billy litli fátækur leigubílstjóri sem leigði með vinkonu sinni Alison í íbúðarkjarnanum fræga. Veggirnir milli herbergja þeirra voru greinilega það þunnir að ástarhitinn streymdi í gegn og þau urðu ástfangin upp fyrir enni. Samband þeirra var eins og skæri, sundur saman sundur saman og alltaf mjög gleitt. Þau trúlofuðu sig en það fór allt fjandans til og hjálpaði klækjakvendið Amanda ekki til sem með bellibrögðum lokkaði Billy til sín af og til með stuttum pilsfaldi sínum. Nú er Billy í góðu starfi hjá D&D, greinilega eina fyrirtæki bæjarins og er giftur beðmálskonunni Brooke sem giftist honum einungis til að komast yfir arf látinnar móður.
Nú: Andrew byrjaði sinn glæsta feril á því að leika meðlim í karateklíku í myndinni 'Karate Kid' 1984 sem flestir hafa séð. Góð byrjun sú arna. Einnig lék hann lítið hlutverk í mynd Tomma Krúsa 'Cocktail'. Hans stærsta hlutverk hlýtur þá að vera í mynd Francis Ford Coppola 'Rainmaker' árið 1997. Engar heimildir eru fyrir því hvað hann gerði eftir MP en nú er hann að leika í myndinni 'Gracie' ásamt systur sinni Elisabeth Shue sem lék meðal annars í 'Hollow Man'. Beikonið flottur í þeirri mynd. Ha, stelpur. Á yngri árum bjó Drúi í Zimbabwe þar sem hann spilaði voðalega mikið fótbolta. Bróðir hans dó í húsi fjölskyldurnnar og var Andrew voða leiður. Skiljanlega. Á tvö börn með spúsu sinni.
Courtney Thorne-Smith - Allison Parker
Þá: Pallison var yfir sig ástfangin af Billy og allt gekk vel þangað til áfengisdjöbbi bankaði upp á hjá henni. Hún fór til dyra og bauð honum kaffi og koníak. Hataði Amöndu salamöndru útaf lífinu, hætti með Silly Billy í tuttugasta skiptið, sökkti sér í búsið, keypti sér sportbíl og var tekin fyrir ölvaðan akstur. Hentist í meðferð og kynntist þar rúbbístjörnu sem var bæði alkóhólisti og kynlífsfíkill. Góð blanda. Þau voru fyrst voða glöð og ekki gröð þangað til rúbbíkallinn hélt framhjá. Var einnig misnotuð af föður sínum á yngri árum. Ojojoj. Allison vinnur hjá Amöndu og Billy með. Skemmtilegur ástarþríhyrningur á vinnustaðnum. Núna er Alli blind eftir sprengju og allt í skölli. Núna rétt áðan var hún svo að fá sjónina eftir að hafa dansað við Billy sinn.
Nú: Courtney lék í mynd sem ég á bara eftir að sjá 'Revenge of the Nerds II: Nerds in Paradise' og mun ég bæta úr því við fyrsta tækifæri enda eflaust eðalmynd þar á ferð ef marka má fyrstu myndina. Lék í barnarúbbímynd með Charlie Sheen áður en hún kom til Melrose Place og aðalhlutverk í mörgum minni myndum og þáttum. Efir MP lék hún stórt hlutverk í floppmynd aldarinnar 'Chairman of the Board' með mest pirrandi og rauðhærðasta gaur sem til er, Carrot Top. En það kom ekki að sök því hún lék smá í 'Spin City' sem eru mjög góðir þættir. Synd og skömm að þeir hættu. Ferill hennar tók stökk þegar hún landaði hlutverki eiginkonu æskuástar 'Ally McBeal' sem flestir af minni kynslóð sátu límd við með tonnataki á yngri árum. Talaði inn á ofurhetjuteiknimynd sem er greinilega afar vinsælt hjá þessu fólki. Við tók 'According to Jim' þar sem Kortní leikur fallegu konu feita mannsins sem er vinsæl formúla í Kanalandi. Stendur sig með prýði á þeim bænum og er á grænni grein. Var svo að deita Andrew Shue á meðan tökum stóð. Habbahabba. Var einu sinni með 32CC barm en minnkaði hann niður í C með því að stunda jóga. Merkilegt.
Grant Show - Jake Hanson
Þá: Í fyrstu var Jake fátækur listamaður sem keyrði um á mótorhjóli. Þessi týpíski kall sem er svo kúl að kúl er ekki til í hans orðaforða því það notar það enginn lengur. Kynntist þá ljósmyndaranum Jo sem heillaði hann upp úr kúrekastígvélunum og saman keyptu þau bifvélaverkstæði. Svo kviknaði að mig minnir í því og þau hætta síðan saman. Jake og Amanda byrja að deita og hún reddar honum vinnu hjá pabba sínum. Jake flettir ofan af svindli tengdó sem lendir svo í fangelsi. Hann losnar úr fangelsi og reynir að drepa Jake sem endar sjálfur á því að drepast. Úbbs! Flakkar á milli Amöndu, Jo og Sydney og kaupir svo subbubúlluna Shooters. Núna er hann nýbúinn að drepa bróður sinn og er byrjaður aftur með Jo. Sem sagt allt að gerast hjá Jake sem ætti kannski bara að fá sér shake.
Nú: Grant lék á árum áður í 'Ástarfleyinu', ekki raunveruleikaþættinum þó. Einnig í nokkrum sjittmyndum og sjittþáttum sem voðalega fáir muna eftir eða hafa séð þangað til hann kom á skellinöðrunni sinni til Melrose. Kom fram í BH þar sem hann lék hinn handlagna Jake Hanson og fellur Kelly Jelly Belly kylliflöt fyrir sjarmatröllinu sem lagar pípurnar á heimili hennar. Hún fær þó ekki meira en einn lítinn mömmukoss frá Jake enda er hann alltof drullutussusvalur til að deita einhverjar smástelpur. Eftir MP lék hann í nokkrum þáttum og bíómyndum og gestahlutverk í 'Ed' sem áhorfendur RÚV kannast eflaust við. 'Six Feet Under', 'Strong Medicine' og 'Beautiful People' hringja allir bjöllum og í þáttunum 'Point Pleasant' leikur Show djöfullegan mann sem keyrir um á limmu og eltist við smástelpu. Um þessar mundir er hann að leika í myndinni 'The Girl Next Door' og það kæmi mér ekki á óvart ef það væri klámmynd. Er giftur, spilar golf og keyrir sportbíla og mótorhjól. Var einu sinni að deita gelluna sem leikur Sydney. Fólkið þarna greinilega að missa sig.
Daphne Zuniga - Jo Reynolds
Þá: Ljósmyndaragellan sem fellur fyrir töffaranum Jake. Notar sína peninga til að kaupa verkstæðið með Jake og þeir fuðra upp eins og allir þeir peningar sem nefndir eru í þættinum. Gerist ólétt eftir einhvern glæpon sem deyr svo. Foreldrar barnsföðursins eru klikkuð og vilja fá forræði yfir barninu þegar það fæðist. Þeim tekst það en þá kemur hin illa dr. Shaw sem þráir ekkert meira en að eignast börn og stelur barninu af henni þegar Jo reynir að fæða það í leyni með hennar hjálp. En dr. Michael Mancini kemur þá til bjargar og lætur Jo fá barnið aftur til að halda vinnu sinni. Jo neyðist þó til að láta ættleiða barnið af ástæðum sem ég skil ekki alveg. Jæja. Hún fékk huggun frá Jake og síðar bróður Jakes sem er ribbaldi. Hann deyr.
Nú: Daphne gerði garðinn frægan í stuðmyndinni 'Spaceballs' frá '87 og lék þar hlutverk Princess Vespa sem er skopstæling á prinsessunni Leiu úr Star Wars, svona ef þið vissuð það ekki. Seinna lék hún í 'The Fly II' sem er örugglega jafngóð og fyrsta myndin. Eða ekki. Í 'Spin City' lék hún og í þáttunum 'Stark Raving Mad' sem skartar Tony Shaloub eða herra Monk. Og aftur er það Batman teiknimynd sem hún talar inn á. Eftir það boraði hún smá í nefið, ekki mikið, og lék síðan gestahlutverk í 'Law & Order: SVU' og 'American Dreams' sem eitt sinn voru sýndir á Stöð 2. Í 'Beautiful People' leikur Daffní einstæða móður sem er einnig fatahönnuður í NY. Talandi um að geta gert tvennt í einu. Þar leikur einmitt Grant Show (Jake Hanson) fyrrverandi eiginmann hennar. Lítill heimur. Núna er hún að leika í þáttunum 'Christmas Every Day' sem eflaust margir bíða svo spenntir eftir að þeir geta ekki kyngt. Daffní situr mótorhjól á meðan gvatemalski pabbi hennar heimspekiprófessorast. Hún er með gat í nabblanum og bjó með Meg Ryan þegar þær voru báðar strögglandi leikkonur.
Josie Bissett - Jane Andrews Mancini
Þá: Jane var hamingjusamlega gift lækninum Michael og hennar helsti draumur var að verða fatahönnuður. Þau tvö stofnuðu fatahönnunarfyrirtæki og síðan missti Michael niður um sig kakíbuxurnar og uppí rúm með rauðhærða lækninum Kimberly. Jane var alveg fjúríus og fór að deita fullt af köllum til að komast yfir kallinn. Einn þeirra plataði hana algjörlega upp úr skónum þegar hann lét hana borga fullt af pening í fyrirtækinu sínu sem hann stal svo sjálfur. Já og svaf hjá Sydney systur hennar og var svo í glæpaklíku allan tímann. Jane er alltaf góð við allt og alla og samband hennar við systur sína er þyrnum stráð. Núna er hún bara að fatahannast og eldar pulsupasta í hvert mál. Núna býr Allison hjá henni því hún er svo blind og Jane er að deita Ríkharð.
Nú: Afsakið orðbragðið en hún Josie hefur ekki gert tussufrussurassgat í bala, hvorki fyrir eða eftir MP. Nokkrar sjittmyndir og nokkrir sjittþættir sem nákvæmlega enginn kannast við eða hefur séð. Þó gestahlutverk í 'Law & Order: SVU' Árið 1996 var hún þó kosin ein af 50 fallegustu konum heims af einhverju blaði. Árið 1993 sýndi hún svo Conan O'Brien öll tattúin sín. Var gift kalli sem á eftir að koma fram í þáttunum (Kyle McBride) og á með honum 2 krakkalakka. Brjóstamál: 34B.
Laura Leighton - Sydney Andrews
Þá: Litla systir Jane kom í bæinn og gerði allt vitlaust. Svaf hjá fyrrverandi eiginmanni Jane og allt ætlaði um koll að keyra. Var gift Michael í svona viku og gerðist svo gleðikona. Alltaf svakalega glöð. Fílaði ekki gleðikonustarfið og fór þá að vinna á Shooters, eina barnum á pleisinu. Var síðan send á geðveikrarhæli fyrir að hafa reynt að keyra yfir fésið á Michael en það var ekki hún sem gerði það. Fékk að fara heim og byrjaði að vinna í tískufyrirtæki systur sinnar. Fór svo í einhvern sértrúasöfnuð en flúði. Sydney litla er alltaf að lenda í veseni enda elta vandræðin hana á öndum. Gúmmíöndum. Var einu sinni að deita Jake og er núna ritari hjá Mikka og Pésa.
Nú: Ekki hef ég séð tangur né tetur af Lauru en hún hefur ekki setið auðum höndum kellingin sú arna. Steig sín fyrstu skref í MP árið 1993, hóstaði einu sinni 'Saturday Night Live' og talaði inn á 'Duckman: Private Dick/Family Man' sem voru snilldar teiknimyndir. Lék svo smá í Beverly Hills og þá nýja persónu. Einnig í 'Tru Calling' sem var eitt sinn sýndur á einhverri sjónvarpsstöðinni. Svo bara í mörgum low-budget myndum sem enginn hefur séð. Núna síðast lék hún gestahlutverk í 'CSI: Miami'. Hún er gift gaurnum sem leikur hommann Matt í MP og á með honum börn og puru. Spilar ABDC á píanó í frítíma sínum.
Thomas Calabro - Dr. Michael Mancini
Þá: Kynþokkafulli læknirinn sem getur ekki haldið tólunum í kakíbuxunum. Var giftur Jane, Sydney og Kimberly, þó ekki öllum í einu en með mjög stuttum millibilum. Lenti einu sinni í bílslysi þegar hann var nýbúinn að biðja um hönd Kimberly og var drukkinn undir stýri. Með kænsku sinni slapp hann með nokkur beinbrot og þurfti ekki að fara í steininn. Svissaði um konur eins og pungbindi og honum var ekkert heilagt. Góðmennskan poppaði þó einstaka sinnum upp á yfirborðið eins og þegar hann bjargaði Amöndu frá vonda lækninum Peter sem hugðist skera úr henni botnlangann til að fá hana til að þegja og deyja. En það var bara af því að hann var svo skotinn í Amöndu og hún var með krabbamein eða eitthvað. Allir vilja hefna sín á Mikka og Mikki vill hefna sín á öllum. Nú á hann læknastofu með Peter og er á lausu þar sem hann sendi Kimberly á geðveikrarhæli.
Nú: Tommi réðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og hans fyrsta hlutverk var í eðalmyndinni 'Exterminator 2' frá '84 sem eflaust allir með lausa skrúfu hafa séð og það margoft. 'Columbo: No Time To Die' tók við árið '92 þar sem hann lék samstarfsmann ofurlöggunnar Columbo sem leikinn er af kvennabósanum Peter 'Lata auga' Falk. Frá '92-'99 lék Tommi í Melrose Place og er eini leikarinn sem lék í þáttunum allan þann tíma sem hann var sýndur. Fyrir það fær Calabro klapp á rassinn frá mér. Á þessum árum lék hann einnig í nokkrum pissþáttum og hóstaði 'Mad TV' þætti af sinni einskæru list. Athygli vekur að hann hefur greinilega festst í læknahlutverkinu enda leikið marga læknana í gegnum tíðina enda með rosalega læknalegt útlit ef ég segi sjálf frá. Eftir Melrós lék hann gestahlutverk í 'Nip/Tuck' og lék þar einmitt lækni. Í 'Cold Case' lék hann einnig gestahlutverk. Nú er hann að leika í mynd sem ber það skemmtilega nafn 'Cake' og mun fólk streyma á hana í kvikmyndahúsin í tonnatali. Tommi er aðeins 173 cm að hæð sem gerir hann tveimur cm minni en ég er. Hann er sem sagt dvergur sem á dvergakonu og 3 dvergabörn og er örugglega akkúrat þessa stundina að borða dvergaköku á dvergaveröndinni sinni.
Marcia Cross - Dr. Kimberly Shaw Mancini
Þá: Hin slóttuga doktor Kimberly féll fyrir Mikka samstarfsmanni sínum en þau koma fram við hvort annað eins og sokkapör og það er rosaleg táfýla af þeim. Gat ekki eignast krakkalinga og tók þá upp á því ráði að stela einu frá Jo. Það plan heppnaðist ekki alveg enda dauðadæmt frá "fæðingu" hugmyndarinnar og barnsins. Reis upp frá dauðum eftir að foreldrar hennar létu Michael halda hana verandi dána. Kom til baka í strandhúsið sköllótt og notar því alltaf hárkollu sem er alveg rosalega raunveruleg. Reyndi svo að keyra Mikka niður og klíndi því á Sydney. Mikki vildi svo frekar Amöndu og þá snappaði Kimb alveg og sprengdi íbúðarhúsið í tætlur. Núna er hún á geðveikrarhæli og læknirinn Peter er núna að digga hana. Er með ljótan spanjólakall í hausnum sínum sem segir henni að drepa drepa og aftur drepa.
Nú: Marcia átti eftirminnilegan leik í þeim gríðarskemmtilegu þáttum 'Cheers' og seinna í 'Who's The Boss?' með villikettinum Tony Danza í aðalhlutverki. Lék síðan pínkuponsuoggupoggulítið hlutverk í 'Murder, She Wrote' sem eru svakalegir þættir með ömmudrottningunni Angelu Lansbury og var ég fíkill í þá á sokkabandsárunum. Í 'Seinfeld' lék hún lækni og einnig í 'Spin City' eins og svo margir aðrir MP leikarar. Gestahlutverk í 'Ally McBeal' og 'Strong Medicine' og 'CSI' og 'King of Queens'. Tók hún við hlutverki aðþrengdu eiginkonunnar Bree Van De Kamp og plummar sig vel sem þrifna en léttgeggjaða ekkjuhúsmóðurin með áfengis- og barnavandamálin. Fyrir það hlutverk hefur hún hlotið Gullna hnöttinn og fleiri styttur. Slúðrið segir svo að hún muni taka að sér hlutverk Pamelu Ewing í 'Dallas' myndinni sem er í bígerð. Greyið Marcia hefur verið með mígreni frá því hún var 14 ára og er nú ólétt af tvíburum eftir kallinn sinn. Pæliði í magaslitunum og rauðhærðu mígreniskrökkunum!
Heather Locklear - Amanda Woodward
Þá: Amanda litla ljóska átti erfiða æsku enda fékk hún aldrei ást föðurs síns keypta. Ekki einu sinni fyrir pjeninga. Bitur kona með skarpt viðksiptavit og lætur ekki neinn vaða yfir sig á skítugum vöðlum. Hefur verið bendluð við töffarana Billy og Jake og læknana Peter og Michael. Víðförul kona eins og sést. Á íbúðarkjarnann og fylgist grant (show. Haha) með öllu sem þar gerist. Er forstjóri D&D og notar óspart svipu á undirmenn sína. Hefur næstum verið drepin af fyrrverandi kæró og fékk krabbamein. Er núna algjört gæðablóð og blabla. Ekkert fútt í henni lengur. Pabbi hennar sprakk í tætlur á báti en ég finn það á mér að hann eigi eftir að púsla sig saman og koma aftur til Amöndu sinnar.
Nú: Heather er örugglega frægasta leikkona sem Melrose hefur alið af sér. Bæði fyrir og eftir þættina. Árið 1981 lék hún í 'The Return of the Beverly Hillbillies' sem voru víst svakalegir þættir og í 'Love Boat' árið 84. Sápuóperurnar hafa átt hug hennar allan og má þá helst nefna 'T.J. Hooker' með William 'Denny Crane' Shatner og 'Dynasty' með Joan Collins í fararnefbroddi. Lék lítið hlutverk í 'The First Wives Club' en það er mynd sem ég hef ekki lagt í að sjá og mun seint gera enda Bette Midler með eindæmum pirrandi lítill rassálfur. Talaði inn á 'Hercules' og 'Batman' og 'King of the Hill' og 'Duckman: Private Dick/Family Man' og lék í 'Scrubs' og 'Two and a Half Man'. Landaði mjög stóru hlutverki í 'Spin City' og var þar alveg snældubrjáluð frá 99-02. Lék svo í gullmyndunum 'Uptown Girls' og 'The Perfect Man' og lék á móti Hillary Duff á örugglega mjög smekklegan hátt. Í 'LAX' fór hún á kostum sem stjórnareitthvað yfir LAX flugvellinum en sá þáttur var ekki langlífur. Nú leikur hún í nýrri mynd sem kallast 'Oranges' á móti lélegasta leikara leiksögunnar, Tom Arnold. Var gift Supernovagoðinu Tommy Lee og rokkaranum Riche Sambora (í nef?), gítarleikara Bon Jovi og á með honum dóttur sem heitir einmitt það sama og dóttir Reese Witherspoon og Ryan Phillippe. Núna er hún víst að deita álfinn og greppitrýnið David Spade sem er bara ljótari en allt. En það voru fyrrverandi líka. Hún er að hluta til Lumbee indíáni og skosk. Góður kokteill.
Doug Savant - Matt Fielding
Þá: Matti var samkynhneigður maður sem þorði aldrei að koma út úr skápnum enda voru fordómarnir án efa meiri þá en nú. Var alltaf að vinna í svona súpueldhúsi fyrir fátæka. Hann vinnur nú á spítalanum ásamt Mikka og Kimberly og hefur oft þurft að kljást við hjónakornin þegar þau gera eitthvað siðferðislega rangt af sér. Daglegt brauð. Hann giftist rússneskri læknakonu svo að hún fengi græna kortið (í strætó) en hún flúði aftur til Rössja með dóttur sína. Matt var að deita kall sem var með alnæmi og það fór bara allt í klessu. Svo varð hann ástfanginn af lækni sem var gifur konu en læknirinn drap konu sína og klíndí því á greyið litla Matt. Í þættinum áðan tókst Matt að fá lækninn til að viðurkenna morðið en þá var Matt rekinn úr vinnunni sinni, örugglega fyrir það að vera svona mikill hommi. Hann er samt með ógeðslega flott dú sem haggast bara þegar hann er pirrípú.
Nú: Doug lék í nokkrum þáttum og myndum fyrir MP og stendur myndin 'Maniac Cop 3: Badge of Silence' upp úr. Klárlega. Hann lék einnig í 'Columbo: No Time To Die' eins og félagi hans Thomas Calabro. Var íbúi í íbúðarkjarnanum umtalaða frá 92-97 og árið 98 lék hann löggu í græna floppernum 'Godzilla'. Lék síðan gestahlutverk í 'According to Jim' og 'The Guardian' og 'NYPD Blue' og '24' og 'CSI' og 'Nip/Tuck'. Stóra breikið hans kom árið 2005 þegar hann tók hlutverk Tom Scavo í ósmurðan analinn í 'Desperate Housewives' og leikur þar margra barna faðir og bisnessmann. Eins og áður segir er Doug giftur Lauru Leighton a.k.a. Sydney Andrews og á með henni 2 börn og önnur 2 börn úr fyrra hjónabandi. Hann hætti víst í MP því hann vildi ekki vera alltaf hommi en fólkið sem stjórnaði sagði bara nei. Samt sem áður var hans karakter fyrsti samkynhneigða persónan sem birtist í sápu í USA. Brautryðjandi hann Matt. Áður en hann gerðist leikari var hann pizzusendill fyrir Dino pizzur - sjúklega hættulegar pizzur.
----
Já 3200 orð. Enda tók þetta 2 næturvaktir. Ef þið lásuð þetta í gegn og eruð enn á lífi eruð þið hetjur.
fimmtudagur, september 28, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli