sunnudagur, mars 27, 2005

Páskar smáskar

eru í dag. Gleði með það. Leitin að páskaegginu hófst snemma í morgun. Eftir um 5 mínútna leit fann ég eggið, í leynihólfi í gamalli kistu sem langalangaamma mín átti. Þar fann ég líka gamlan konfektmola. Stórefa samt að langalangaamma hafi átt hann. En ég fékk besta málsátt sem ég hef fengið. Hann er svona: Vinur þinn á vin og vinur vinar þíns einnig, hafðu því gát á tungu þinni. Úff, þetta er bara snilldar málsháttur. Og þess vegna ætla ég að fara eftir honum, kominn tími til.

Hún Ása sem er að vinna með mér er frá Færeyjum. Við erum orðnar góðar vinkonur og eftir vinnu í gær fengum við okkur ís. Ojá. Hún sagði mér allt um Færeyjar og kenndi mér meira að segja smá færeysku, sem ég er reyndar búin að gleyma. En hún sagði mér að í Færeyjum "rolla" Færeyinar páskaeggjum niður fjall. Svo þegar það kemur niður á jafnsléttu er eggið brotið og þá er hægt að borða eggið. Ef svo óheppilega vill til að eggið brotnar ekki, þá má ekki borða það. Mér finnst þetta sniðugur siður. Mig langar að fara til Færeyja og borða skerpukjöt á brauði. Og "smúla" svo um bæinn, þ.e. rúnta. Hérna er færeysk heimasíða sem ég er búin að hlæja mikið að. Njótið! En ég og Ása eigum margt sameiginlegt. Til dæmis höfum við báðar gaman að tungumálum. Svo kann hún alveg fullt af þeim; þýsku, ensku, latínu, frönsku, norsku og dönsku. Svo á hún kærasta sem gengur alltaf í útvíðum buxum og notar sixpensara. Reyndar eigum við það ekki sameiginlegt...

Jæja, ég var plötuð í Catan. Kann ekki Catan en það er allt í lagi.

Engin ummæli: