mánudagur, september 13, 2004

Siggrímur

Helgin var slöpp, sérstaklega af því að ég var ein heima í fyrsta skiptið í langan tíma og ég hélt ekki sukkað kynsvall eins og í öll hin skiptin. Á föstudeginum fór ég nú í afmæli til hans Ingimars en á laugardeginum gerði ég eiginlega ekki neitt. Ég og Oddný sátum heima hjá mér og höfðum ekkert að gera. Við höfðum engan bíl og fórum því í Eye Toy, hinn skemmtilega tölvuleik sem fellst í því að boxa, þurrka rúður og drepa drauga. Við urðum fljótt þreyttar á þeim leik og ákváðum því að horfa á DVD. Hin feikiskemmtilega teiknimynd Litla hafmeyjan 2 varð fyrir valinu og vitaskuld sofnaði ég. Svo datt okkur í hug að kíkja aðeins í partí og fá ökkur heitan hund á Select. Við gátum nú ekki labbað í vesturbæinn í partíið þannig að við urðum nú að aka. En enginn var bíllinn... nema gamla Toyota Corolla druslan hans pabba (Siggrímur) sem er einungis 14 ára gömul og lyktar eins armkriki. Við ákváðum að flippa ærlega, vera villtar og stálumst að fara á bílnum. Oddný var ekki með ökuskírteinið sitt þannig að við vorum soldið mikið að brjóta lögin. En það var bara enn meira spennandi. Bíllinn hann Siggrímur vildi ekki fara í gang og eftir nokkrar tilraunir varð bíllinn rafmagnslaus. Pabbi hefur því alveg örugglega ekki komist í vinnuna á réttum tíma í morgun og veit alveg pottþétt af hverju. Síðan fórum við inn og töluðum saman um stráka til kl. 4 um nóttina. Já, þetta var ein slappasta helgi hingað til. Segi ekki meir.



Siggrímur og pabbi á góðum degi

En helgin hjá foreldrum mínum var nú örugglega öllu betri. Þau fóru á æskuslóðir móður minnar í Reykhólasveit á Vestfjörðum og áttu þar glaða daga í faðmi afa og ömmu. Á meðan mamma og gangandi unglingaveikin fóru í berjamó, fór pabbi á gæsaskytterí. Það samanstóð af nokkrum plastgæsum, gæsaflautu, dúk í hermannalitunum, legu í skurði og auðvitað riffli. Eftir nokkra tíma sást fyrsta gæsin og hún var skotin. Heimilishundurinn, sem gerir ekki flugu mein, kom svo með hana í kjaftinum, alblóðugur. Ég mun aldrei aftur geta litið hundinn sömu augum og áður. ,,Og þessi verður sko étin!" Það var það fyrsta sem pabbi sagði þegar hann kom heim með gripinn í plaspoka og fór svo að logsjóða hana. Frekar kýs ég bláberjasultuna hennar mömmu.

Engin ummæli: