Body Prump
Ég upplifði minn lengsta klukkutíma hingað til í gær. Ég og móðir mín ákváðum að taka okkur til og fara í ræktina til að vera nú mönnum sæmandi á ströndinni í Portúgal í sumar. Við keyptum okkur sitthvort 2. mánaða kortið fyrir morðfjár og fengum gefins 2 brúsa af því að afgreiðslukonan sá á okkur að við vissum ekkert hvað við vorum að gera. Með brúsann í hendi, fórum við í okkar fyrsta tíma - Body Pump.
Í hvert skipti sem ég heyri þetta orð - Body Pump - get ég ekki annað en séð fyrir mér mann eða konu með hjólapumpu í rassinum. Svo er pumpað og pumpað og maðurinn eða konan er orðin/n að stórum belg með útlimina skagandi út úr belgnum sem byrjar svo að svífa um loftin blá eins og loftbelgur eða gasblaðra á 17. júní. En svo er víst raunin ekki. Body Pump samanstendur af leikfimiæfingum með misþung lóð og einhvers konar pall.
Við gengum inn í salinn með augun á stilkum og vissum ekkert útí hvað við vorum að fara. Fólkið í tímanum samanstóð af miðaldra húsmæðrum með siginn rass og maga og svo voru tvö steratröll sem gerðu hvað þeir gátu til að sýna öllum hinum hvað þeir gátu nú sett þung lóð á stöngina sína og reyndu að klæðast sem litlum fötum til að geta hnykkt vöðvana hvað mest. Þetta byrjaði bara ágætlega. Við vorum með langléttustu lóðin og byrjuðum á skrýtnustu upphitunaræfingu sem ég hef séð. Algjör óþarfi að fara eitthvað nánar út í hana. Móður minni gekk ekkert svakalega vel og var alltaf á mis við alla aðra hvað varðar taktinn. Þegar við fórum með lóðin niður, setti hún þau upp. Seinna kom hún með þá útskýringu að það væri vegna þess að hún er örvhent - það skiptir nefnilega svo miklu máli þegar kemur að lóðum. Til að gera langa sögu stutta, var tíminn loksins búinn. Mér fannst ég hafa verið þarna inni í um það bil 3 tíma en neinei, ég var búin að vera inni í aðeins einn. Eftir tímann tók þjálfarinn okkur afsíðis og sagði okkur hvað það var sem við gerðum vitlaust. Eftir þónokkuð langa upptalningu ákváðum við mæðgurnar að fara aldrei aftur í þennan tíma og gáfum honum nafnið Body Prump því það er tíminn svo sannarlega - algjört prump.
föstudagur, maí 28, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli