fimmtudagur, apríl 08, 2004

Bæli hinna dauðu

Jah sveisvei. Það mætti bara halda að allir væru dauðir. Enginn tjáir sig lengur um páskana. Það er greinilegt að fólk er að herma eftir Jesú, að deyja bara. Haha! En ég er svo sannarlega ekki dauð enn því ég er enn í fullu fjöri. Samdi ljóð áðan um Sigrúnu og það í snatri án stuðla og höfuðstafa. Hver þarf þá um páskana? Neih sko! Tvær neðstu línurnar bara með stuðla og læti, alveg óvart! Þetta kalla ég nú hæfileka. Nei, ég meina hæfileika.

Sigrún ei í kjólinn fer.
Hvað á hún að gera?
Labbar ein um bæinn ber,
borðar nammi og stera.


Ef ég væri að fara í fermingu um páskana myndi ég semja ljóð um fermingarbarnið og hafa það klúrt. Ég hefði verið mjög glöð ef einhver hefði gefið sér tíma og samið klúrt ljóð handa mér á fermingardaginn. En gerði það einhver? Nei. En það eru 5 fermingar á næsta ári sem þýðir bara eitt fyrir mig: partý!

Kallið mig Samningakonuna. Ég gerði hið ómögulega áðan: fékk pabba til að skrifa undir samning um að jólin 2004 fengi ég herbergi í kjallaranum. Ég þurfti ekki að grípa til táranna eins og ég hélt því mamma kom mér til hjálpar á ögurstundu. Hún er góð kona. Rök pabba fyrir því að þetta væri afleidd hugmynd, er að þá þyrfti hann að hlaupa upp á næstu hæð fyrir ofan til fara á náðhúsið þegar ég er með "gest" og hann er að horfa á leik. 1,5 fermetra klósettið er nefnilega fyrir innan mitt tilvonandi herbergi. Ég sagði að hann gæti bara pissað úti því hann hafði nú öll tólin til þess. Kallinn leit á þetta sem hina mestu móðgun og ég var í djúpum skít. En þá kom hvolpasvipurinn til bjargar og það ekki í fyrsta skipti. Kallinn játaði beiðni minni og skrifaði undir samning á eldhúspappír. Við tókumst síðan í hendur og mamma tók mynd af okkur með Colgate-brosið. Næstu jól verða því puðjól. Sumarið var alveg ómögulegt því þá ætlar hann a sprengja hólinn í garðinum okkar og byggja pall. Þá verða nú álfarnir ekki glaðir. Nú er hann að reyna að fá mig til að hætta við með því að segja að herbergið verði ekkert stærra við að búa til nýtt. Það er bara kjaftæði.
Núna þegar ég pæli í því, þá sé ég að ég tala alltof mikið um foreldra mína á þessari síðu. Ég ætla að hætta því.

Þrír mánuðir í Portúgal!


Engin ummæli: