Helvítið hann Jóhann Felixson!
Hann er ástæðan fyrir því að öll fjölskyldan er með niðurgang. Ég er nefnilega að tala um hann Jóa Fel, kokkasjarmörinn ógurlega. Það var keypt þessi dýrindissteik undir hans nafni fyrir kvöldmatinn í gær og nú sitja allir á klóinu með skitu mikla... nema ég. Það svaf enginn í nótt og það myndaðist biðröð fyrir utan klósettið en á meðan svaf ég værukærum blundi. En það hefur sína kosti að eiga 2 klósett en það komst bara enginn á það fyrra því annars hefði allt gossað á leiðinni. Það er vilji manna að kæra manninn en sú hugdetta var þögguð niður strax við fæðingu. Núna er bara best að liggja á bæn og vona að hörmungunum ljúki nú einhvern tímann á næstunni svo hægt verði að borða páskamatinn. Ég nenni ekki að fá Dominos pizzu eins og fyrra. Það var nú meira steikin.
Páskahreingerningin búin. Heimilisfólkið fór í ísbíltúr á Hvolsvöll í gær og ég sagðist ekki ætla að koma af því að ég ætlaði að lesa Kein Schnaps für Tamara. Þá var ég kölluð nord og félagsskítur. En ég ætlaði nefnilega ekki að lesa bókina, ég ætlaði að taka til í öllu húsinu, sýna smá lit og það gerði ég. Ég byrjaði á því að ryksuga allt og þurrka af öllu og svo tók ég herbergið mitt í gegn. Fór í gegnum allar skúffurnar og fann margt skemmtilegt. Til dæmis fann ég augasteinshring sem ég keypti á götumarkaði í Búdapest árið 1998 í minni fyrstu utanlandsferð. Einnig fann ég sundmiða í sundlaug í Búdapest sem var svona fansípansísundlaug. Þar var innilaug þar sem allir áttu að vera allsberir og með sundhettu og í henni var bara gamalt fólk. Útilaugin var með öldulaug og ég drukknaði og kafnaði næstum í henni. Svo var allt út í rauðum flísum sem voru sjóðheitar og ég held að ég sé ennþá með brunasár á iljunum. Svo fann ég líka um 30 bíómiða en á mínum yngri árum safnaði ég svona afrifum af bíómiðum. Ég var svo brenglað barn. Ég fann líka mynd af strák sem ég var svo hrifin af í 9. bekk en núna er hann víst kominn út úr skápnum. Gott hjá honum! Skemmtilegast var þó að finna bréf frá afrískum pennavini mínum sem bað bara um liti, myndavélar og úr. Já, og símanúmerið mitt! Ég get þó státað mig af því að strákur hefur beðið mig um númerið mitt. Þegar ég hætti svo að senda þessum strák til baka, lét hann bara vini sína fá heimilfangið mitt og þeir sendu mér tyggjó frá Ghana og skartgripi og báðu svo um vasareikni í staðinn. Þeir voru nú meiri steikurnar.
En svo kom fólkið heim og tók ekki eftir neinu! Algjörar beyglur.
laugardagur, apríl 10, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli