laugardagur, janúar 18, 2003

Dagurinn byrjaði bara ágætlega. Eftir minn vikulega laugardagsfegurðarblund, ákvað ég að taka smá til í mínu værelse. Fyrsta stoppustöð var skúffan á skrifborðinu mínu. Þar fann ég marga kynngi magnaða hluti sem ég hafði ekki séð í mörg ár eins og gamlan smokk sem ég fékk með HIV drykknum ágæta, nærbuxur af systir minni sem ég hafði einhvern tíma falið fyrir henni og hundabein. En það sem fékk mig til að veltast um af hlátri var bréf sem ég hafði skrifað þegar ég var 12 ára. Á því stóð að ég ætti að opna það 27. nóvember 2000 (s.s. á 14 ára afmælisdegi mínum) Umslagið var óopnað og því stóðst ég ekki mátið og reif það í tætlur. Inni í því fann ég bréf sem var skrifað á Tweety bréfsefni og í því stóð:

Halló Særún

Þegar þú verður orðin 14 ára átt þú kærasta. Hann er með ljóst sleikt hár, gengur í kúkabuxum, á heima á Akranesi, æfir handbolta, heitir Aggi og þið giftist. Hann er 4. kærastinn þinn á þessu ári því að þú ert alltaf að byrja og hætta með strákum. Þú verður orðin þokkalega rík því að þú vannst í lottóinu og átt bönns af fötum og meiköppi.

Já... þetta kom mér svo sannarlega í gott skap! Þessi Aggi átti víst að vera einhver strákur sem ég kynntist á tjaldstæði á Ströndum (að mig minnir) og heillaði mig greinilega svo mikið upp úr skónum að ég ákvað að gera hann að framtíðareiginmanni mínum. Fegurðarmat mitt var greinilega eitthvað brenglað þetta sumar því að ég tel það mjög ólíklegt að ég myndi kolfalla fyrir gaurum með ljóst, sleikt hár og búa á Akranesi á árinu 2003... ónei!! Og boðskapurinn með þessari sögu er: Takið til í skúffunum ykkar! :D

Engin ummæli: