miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Mín

ekki alveg að standa sig í blogginu hérna. Afmælisdagurinn minn já. Hann var góður. Var með rautt naglalakk og rauðan varalit yfir allan daginn enda mátti ég það alveg. Svo var ég með Birthday með Sykurmolunum á rípít það lengi að ég verð að taka mér pásu á því lagi í smá tíma. Gleymdi að segja frá því að systir mín gaf mér líka Mars með pakkanum frá henni og lá ég ofan á Marsinu þegar ég fór aftur að sofa. Vaknaði öll brún á bakinu og fékk nett flassbakk. Fann einu sinni bráðnaða Maltesers kúlu klínda í rúmið mitt og hélt að einhver hefði kúkað í rúmið mitt. Góðir tímar. Já svo var ég að taka til í herberginu mínu og fann einhverja ógeðslega gráa klessu á gólfinu undir sjónvarpsborðinu mínu. Fór eitthvað að þefa af þessu og fattaði þá hvað þetta var. Svona Dracula brjóstsykur sem ég kastaði einhvern tímann þegar ég var ekki í góðu skapi fyrir svona 2 mánuðum. Og núna er klessan bara föst. Ég og nammi erum greinilega ekki góðir vinir.

Svo var bara gaman í fjölskylduboðinu þó að sumir fjölskyldumeðlimir kunni greinilega ekki á klukku. Fékk góðar gjafir. Inneign í Smáralind sem verður brúkuð í jólakjólakaup. Hárdót sem ég á að nota í útlöndunum. Óléttumálverk eftir 7bbu frænku. Dónabók frá Stjána frænda. En svo gat ég ekki borðað mikið af þessum dýrindiskökum enda er matarlystin ekki búin að vera mikil upp á síðkastið. Eitthvað sem ég hélt að væri ekki hægt á mínum bæ. En hverjum er ekki sama...

Frí í viku eftir næturvaktina í nótt. Je. Það frí verður brúkað í eitthvað sniðögt og skemmtilegt. Held kannski teiti næstu helgi. Veit ekki alveg. Annars eru heimsóknir vel þegnar. Á alveg kökur sko sem ég er tilbúin að deila með mér.
Peace.Love eins og stelpan sem dýrkar mig á myspace segir alltaf.

mánudagur, nóvember 27, 2006

Þá er komið að því

Særún er orðin kona. Eða svona... Allavega orðin tvítug. Dagurinn byrjaði bara helvíti vel. Var vakin með misfallegum afmælissöng í morgunsárið. Pabbi á nærbuxunum eins og vanalega. Fékk þetta dýrindis hálsmen og hring frá uppalendunum og þetta svaðalega gelluveski frá örverpi og gæludýri. Hélt svo bara áfram að sofa og var að vakna núna. Var þó alltaf að vakna við sms-bíb en það var allt í lagi. Góð ástæða fyrir þeim. Dagurinn fer svo bara í það að taka til, baka smá, í tónó og svo er kökuboð hérna fyrir nánustu ættingja í kvöld. Ég vil hafa barbídiska og hatta og svona plastlúðra en mamma leyfir mér það ekki. O. En svo eru það leiðindin. Næturvaktin ógurlega! Gubbigubb! En svona er það víst. Og já, blóm og kransar eru afþakkaðir en ekki hitt. Takk.

Farin í ríkið... bara svona upp á prinsippið.

mánudagur, nóvember 20, 2006

Upp og niður

Þetta krakkaveður hjá Sigga stormi er alveg magnað. Vindkviða er táknuð með einhverju sem líkist mörgum sáðfrumum sem streyma á hraða ljóssins. Magnað! Tékkið á´essu.

Og þá eru það fréttir. Ég er sem sagt að fara að túra um allan heiminn með engri annarri en Björk Guðmundsdóttur í meira en heilt ár. Byrjar í apríl 2007 og fyrsta giggið er í Kaliforníu. Meira veit ég ekki. Fer samt víða: Afríka, Asía, Suður-Ameríka, Ástralía, Evrópa og Bandaríkin. Þetta verður þannig að ég verð einn mánuð á túr og svo einn mánuð heima og svo einn mánuð á túr og svo framvegis. Ekki konutúr heldur spilatúr. Við erum 10 stelpur sem erum að brassast með henni og tókum við 2 lög upp á plötu með henni fyrir viku sem var hevví gaman. Fékk sushi í hádegismat en get ekki sagt að ég sé mikill aðdáandi. Björk, Erla og Sigrún eru líka að fara þannig að mér á ekkert eftir að leiðast. Allavega ekki mikið. Svo er víst verið að hanna á okkur búninga og verður það eflaust skrautlegt. Glimmer og g-strengur kannski. En ég er allavega drulluspennt fyrir þessu en kvíði líka smá. Erfitt að vera frá öllum svona lengi en sem betur fer er þetta bara einn mánuður í senn. Og alltaf þegar eitthvað gott gerist fylgir eitthvað slæmt í kjölfarið. Það er bara þannig hjá mér. Svona jing og jang. Tölum samt ekki meira um það. Bara leiðinlegt.

Og fegurðardrottningin Björk Níelsdóttir er tvítug í dag og óska ég henni til hammó með það. Svo er það bara kellan ég eftir viku. Jíha. Ég kveð á þessum mánudegi sem er fullur af slappleika og móral. Út.

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Ég og trúðar

Ég og trúðar höfum aldrei náð vel saman. Ég hef átt margar óþægilegar reynslur sem tengjast trúðum og við erum bara ekki góðir vinir.

Mín fyrsta reynsla var þegar það kom einu sinni sirkus í Hafnarfjörðinn á Víðistaðatún í tjaldi og læti. Mamma fór með mig þegar ég var sirka 5 ára og ég var að drepast úr spenningi. Svo varð ég auðvitað að smakka bleika skýið sem allir voru með, sem sagt kandí floss. Mamma lét mig fá pening og ég valhoppaði að söluvagninum. Þar var útlenskur trúður að afgreiða þannig að ég gat ekkert spjallað við hann eins og ég var vön að gera í þá daga. Við hvern sem er. Fékk kandí flossið og labbaði í burtu. Þá sá ég að trúðurinn var að labba á eftir mér. Ég var ekkert sátt við það þannig að ég fór að hlaupa og trúðurinn á eftir. Þá fór ég að hágrenja enda orðin drulluhrædd við trúðinn. Kom til mömmu og trúðurinn náði að útskýra fyrir henni að ég hafði gleymt að borga. Samt.

Svo vorum við með ógeðslega margar sjónvarpsstöðvar á mínum yngri árum og var ég alltaf að horfa á Cartoon Network. En á kvöldin var alltaf einhver stöð á sömu stöð og Cartoon Network sem hét TMT eða TNT eða eitthvað. Þar var alltaf verið að sýna einhverja mynd sem fjallaði um stelpu sem fékk gefins trúðabrúðu og svo lifnaði hún alltaf við á nóttunni og herjaði á fjölskylduna, kyrkti þau og svoleiðis skemmtilegt. Já og gróf þau í drullupolli. Hræðslan skánaði ekki við þetta áhorf.

Svo er það rúsínan á pylsuendanum (oj, örugglega mjög vond pylsa) Þegar ég var 7 ára vann ég í getraun í Stundinni okkar og fékk í verðlaun að draga nöfn næstu vinningshafa úr risastórri kúlu og vera með skemmtiatriði og læti. Jæja, mætti upp í gamla RÚV húsið á Laugarveginum með mömmu í fína köflótta skokknum mínum og í púffskyrtunni minni. Og það fyrsta sem ég sá þegar ég kom inn var trúður í nærbuxum einum fata. Svona þröngum spídónærbuxum. Hann tók í höndina á mér og svo þurfti ég að vera með þessum trúð í upptökunni og hélt mér í góðri fjarðlægt frá honum það sem eftir var. Perratrúður.

Hræðslan hefur sem betur fer minnkað með árunum enda hef ég ekki lent í neinu slæmu upp á síðkastið þar sem trúður kemur við sögu. Hef einu sinni farið í sirkus og það í Köln en sem betur fer náði ég að halda kúlinu. Ætli ég verði ekki bara að fara í trúðaskóla ef ég vill virkilega losna við þessa fóbíu. Veit ekki.

sunnudagur, nóvember 12, 2006

Lon og don

Kom heim frá London í gær ásamt fríðum förunautum. Förubeljum ætti það kannski frekar að vera. Gerðum margt skemmtilegt en ég nenni ekki alveg að koma með ítarlega ferðasögu þannig að ég ætla bara að stikla á stóru.

- Fórum á Spamalot, leikrit Monty Python manna og það var bara geðveik snilld. Vorum reyndar í lélegustu sætunum en þá var gott að geta leigt leikhúskíki. Ég bara hló og hló og hló eins og mér einni er lagið. Fórum svo á kokteilbar og ég fékk geðveikt vondan mojito. Oj.

- Verslaði kúkamikið en sé svo ekki eftir kaupunum. Keypti úlpu, stígvél, Mary Poppins tösku (taska sem allt kemst í) sem var búin til úr gömlum leðurjakka, hornnótur og fullt af nærfötum. Já og nýtt listaverk á listaverkavegginn minn. Svo þurfti ég að kaupa einhverja kápu handa mömmu sem var heví þung. En fyrst þetta var fyrir mömmu gömlu þá lét maður sig hafa það.

- Svo saurgaði ég margar styttur á götum London. Lét risahest kúka á mig, riðlaðist á hundastyttu og kíkti undir frakka Sherlock Holmes. Særún dónastelpa.

- Ég og Erla trítluðum í Tate Modern og ætluðum að fara í risarennibrautirnar en þá var bara svo mikil röð og við fengum ekki miða í efstu rennibrautina. Fúlt.

- Fórum í London Eye (risastórt parísarhjól) að kvöldi til og það var massakúl.

- Fórum í Camden Town sem er svona pönkarahverfi og þar missti maður sig í mörkuðunum. Þar fékk ég líka afar ánægjulegt símtal.

- Síðasta kvöldið var stefnan tekin á Soho hverfið til að djamma almennilega. En það sem við vissum ekki var að það kostar inn á alla staðina um helgar og ég var ekki með mikinn pening á mér. Létum þó einhverja gríska stelpu lokka okkur inn á Hverfisbarinn 2 og þurftum að borga 8 pund inn en stelpan sagði að við myndum fá frían drykk á barnum þannig að við slógum til. Komum inn og þá þurfti maður að borga meira til að geyma yfirhafnir og það var bannað að fara með jakkana sína inn á staðinn. Asnó pasnó. Þannig að þá vorum við búin að eyða sirka 10 pundum (1300 kr.) bara til að komast inn á staðinn sem var allur út í jólatrjám. Jæja, ætluðum að ná í drykkina okkar en nei, þá var stelpan bara eitthvað að bulla og enginn frír drykkur. Þá datt maður bara alveg úr djammfílingnum og við fórum bara aftur upp á hótelið eftir að hafa hlaupið undan nokkrum Írum sem voru in the navy. Einn var ekki sáttur þegar ég fór að synga "In the navy!". Og ég sem syng svo fallega.

- Svo fórum við bara heim snemma næsta morgun og ég beint á æfingu upp á Seltjarnarnesi. Já svo keypti ég mér langþráðan iPóða í fríhöfninni. Svartur og stinnur.

Hendi inn dónamyndunum þegar ég nenni. Nenni sem sagt voðalega litlu þessa dagana. En ef þið verðið stillt þá segi ég ykkur kannski gleðifréttir á næstu dögum sem munu breyta ansi miklu í lífi mínu næstu árin. En bara ef allt gengur að óskum. Særúnum Óskum. Hohohoho. Bis später meine Damen und Herren!

föstudagur, nóvember 03, 2006

Góðir landsmenn

Ég vil lýsa yfir andstöðu minni á prófkjörum. Það er nefnilega alveg gjörsamlega óþolandi að vera vakin með símtali á ókristilegum svefntíma til að biðja mig um að kjósa einhvern mann sem ég veit ekki einu sinni hver er. Og þessi SMS! Ég ætla ekki einu sinni að tala um öll SMS-in sem ég hef fengið frá fólki um hvippinn og hvappinn, fólki sem ég þekki ekki baun í bala í dag. "Strákurinn okkar þarf á þínum stuðningi að halda." Fyrst hann þarf þennan stuðning svona rosalega mikið, þá á hann bara ekkert heima þarna og á ekki skilið að vera kosinn! Ég er reið!
Ef ég vil fara að kjósa þá fer ég bara að kjósa og þarf engan til að minna mig á það. Já ég er rosalega ópólitísk en þannig vil ég bara vera. Segi bara eins og Ásgeir "Appelsína" Kolbeins: "Ég get ekki hugsað mér að fara þarna í bað, hvað þá pissa í klósettið. Ógeðslegt." Það sama segi ég um kosningaskrifstofur.

Yfir í aðra kirkjunnar sálma. Fór í akstursmat(arboð) í dag hafandi keyrt próflaus um götur borgarinnar í um viku. Óþekk ég. Niðurstaða: ég er góður bílstjóri. Þið getið því alveg verið róleg í bíl með mér. Sérstaklega fólkið sem tekur stundum í haldfangið þarna í loftinu þegar ég keyri. Og fólkið sem segir að ég keyri eins og kelling, við ykkur vil ég þetta segja: Betra er að keyra eins og kelling en eins og dauð kelling. Hananú.

Og nú eru allir fótlama á heimilinu nema ég. Hahaha. Þá hoppa ég um öll gólf af því að ég er sú eina sem get það. Öfundin skín af þeim. Hahaha.

Oj, næturvaktahelgi. Átti að vera í fríi en varð að skipta um helgi útaf London-ferðinni. Búið að bjóða mér í ÞRJÚ partý á morgun. Kemst ekki í neitt. Lífið er stundum viðbjóður. Nei það er ágætt bara. O svo þarf ég að kíkja í þetta nýja IKEA. Örugglega sú eina sem hefur ekki farið þangað. Ef ég þekki mig rétt þá á ég eftir að villast. Feitast. Ætla að hætta þessu væli núna. Núna.

Finnið villuna!


Sá/sú sem vinnur fær British Fudge frá mér.