sunnudagur, október 29, 2006

Sussubía!

Loksins kemur ferðasagan. Fer þó ekki út í subbublega smáatriðin því enginn vill vita þau. Jæja.

Föstudagur: Faðir skutlaðist með mig út á völl snemma snemma og blabla. Þessi nýja fríhöfn er ekkert sniðug og tók það mig langan tíma að finna hraðbanka sem var falinn í einhverju skúmaskoti. Fyndið að ég hitti alltaf einhvern sem ég þekki í fríhöfninni í þau fáu skipti sem ég legg leið mína þangað. Lítið land lítið land. Hoppaði í vélina eftir að hafa setið ein hliðina á nokkrum túristum að drekka latté í um klukkutíma. Sat hliðina á konu sem var rosalega fúl eitthvað. Sat líka hliðina á klósettinu og endrum og sinnum blossaði upp þessi svakalega kúkafýla að mér varð um og ó. Til að byrja samræður við fúlu konuna sagði ég: "Það er naumast lyktin!" Hún fnussaði bara og hélt áfram að lesa Hér og nú og drakk hvítvínið sitt. Úr vélinni var stiginn léttur dans og náði ég að redda mér með því að elta fúlu konuna að töskudraslinu. Fann leiðina að lestarmiðasölunni, keypti miða og hringdi í Kristínu fínu sem ætlaði að hitta mig á Hovedbane. Fór í lestina og aldrei sá ég neitt skilti sem var bendlað við umrædda stoppustöð. Vesen númer eitt: Hringdi í Kristínu eftir um 20 mínútna lestarferð og var þá komin í Hellerup sem er úthverfi Köben og fáir kannast við. Þá hafði ég misst af stoppinu mínu og varð að snúa við. Fagnaðarfundir brutust út við komu mína. Vona ég. Kom í svítu stúlknanna og beint á Laundromat sem Frikki Weiss á. Fékk mér þar dýrindis hamborgara enda ekki búin að borða neitt þann dag. Flugvélamatur með skítafýlu í loftinu er bara ekki að gera sig. Keyptum bjór og fórum svo í smá teiti þar sem íslensku slögurunum var þeytt út í allar áttir. Ég, Guðný og Guðrún Elsa fórum á kokteilbar og ég hélt að það væri búið að nauðga Guðrúnu á klóinu. Sem betur fer gerðist það ekki. Svo fórum ég og Guðný á annan bar og mojito var það heillin. Sofnaði eftir sólahringsvöku við hliðina á stelpunum og vaknaði stuttu seinna við það að ég var að rúlla á gólfið. Færði mig í sófann.

Laugardagur: Svo fórum við bara í bæinn að fá okkur í svanginn og ég rúllaði í gegnum H&M. Já svo sá ég húsið þar sem Jónas Hall rúllaði niður tröppur. Vá ég er búin að segja 'rúlla' alveg fjórum sinnum. Svo fórum ég og Kristín heim og fengum heimsókn og drukkum öl og hvítvín. Svo komu Hildur og Guðrún Elsa og við fórum saman í Íslendingapartí númer 2 hjá Kristjáni. Ópalið var teygað og síðan þræddum við staðina í leit að fólki og enduðum á skipperbar þótt við reyndum ítrekað að komast inn á strippstað en af því að við vorum svo margar stelpur þá fengum við ekki að koma inn. Samt buðumst við til að dansa. Á skippernum var tjúttað og drukkið og teknar súrar myndir. Djúkbox var á staðnum með fullt af lélegum lögum. Svo lélegum að ég man ekkert hvaða lög þetta voru. Talaði við gaur sem ég hélt að væri þýskur en var svo bara danskur allan tímann. Svo fór ég heim. Vesen númer tvö: Engin af stelpunum svaraði dyrabjöllunni eða símanum sínum og ég var föst úti í sirka hálftíma með tilheyrandi ekkasogum. Á endanum komst ég þó inn.

Sunnudagur: Sá dagur fór í almenna þynnku. Ég, Guðný, Guðrún og Hildur héngum á Laundromat fram á kvöld enda biðum við í marga tíma eftir að eldhúsið opnaði. Svo fékk ég þetta skemmtilega hælsæri eftir nýju/gömlu stígvélin mín nýbúin að segja: "Það besta við að eiga notaða skó er að einhver er búinn að fá hælsæri fyrir þig." Djöflastígvél. Þurfti því að leika fötluðu stelpuna á leiðinni heim. Jæja, horfðum á Seinfeld þangað til við fórum að sofa.

Mánudagur: Vaknaði tiltölulega snemma og Guðrún og Kristín fóru með mér á Strikið að versla. Verslaði alveg ágætlega mikið en samt rosalega mikið af ópraktískum fötum og fötum sem ég nennti ekki eða hafði ekki tíma til að máta. Góð. Keypti svo 5 DVD myndir á 150 DK krónur = 1800 kall! Fattaði samt ekki að franska myndin Amelie var bara með dönskum texta. Já og finnskum. Góð. Tók svo strætó til stelpnanna með húslykil af svítunni til að geta pakkað og svo var Kristján svo góður að bjóðast til að skutla mér á völlinn mér til mikillar gleði enda var "lestarslysið" mér minnisstætt. Vesen númer þrjú: Á hurðinni voru tveir lásar og ég byrjaði á því að reyna að opna þann efsta. Ekkert virkaði. Prófaði hinn. Ekkert virkaði. Hringdi í stelpunar. Ekkert virkaði. Hjartað hamaðist. Greyið Valdís varð að hjóla til mín og opna fyrir vitleysingnum mér sem hafði læst efri lásnum í fyrstu tilrauninni. Pakkaði í fússi og upp í bíl. Átti að fljúga 20:55. Tveir tímar til stefnu. En nei. Vesen númer fjögur: Ég átti þá að lenda 20:55 og fljúga 19:45. Minna en klukkutími til stefnu. Hjartað var essinu sínu. En þetta reddaðis á endanum. Náði fluginu en sat í þetta skiptið hliðina á tveimur verslópíum en vélin var full af þessu pakki. Svo héldu þær allan tímann að ég væri útlensk og báðu mig alltaf um að standa upp á ensku þótt ég svaraði á íslensku og talaði við flugfreyjurnar á íslensku. Dö! Þær hermdu líka alltaf eftir mér. Þegar ég fór að skoða myndir í myndavélinni minni gerðu þær það líka. Við sína vél, ekki mína. Þegar ég bað um kodda gerðu þær það líka. Þegar ég fór að pissa komu þær á eftir mér. Ósjálfstæðu manneskjur. Lenti 20:55. Mamma beið eftir mér með tárin í augunum. Saknaði litlu stelpunnar sinnar. Mússímúss.

Á heildina litið yndisleg ferð til yndislegra stúlkna þrátt fyrir öll vesenin. En smá aksjón hefur drepið fáan manninn. Ég er ekki ein af þeim. Minni enn og aftur á súrar ferðamyndir og hafa þær verið ritskoðaðar. Þá er það bara London baby eftir 1 og hálfa viku!

Kvót vikunnar: "Pabbi, ertu að fara að kaupa þér svona LSD sjónvarp?"

Engin ummæli: