People are strange
Ég er umkringd af skrítnu fólki. Ég var í tónlistarskólanum áðan að fara í hljómfræði og var að borða máltíð dagsins. Þá sá ég mann koma labbandi í áttina að mér og hann var með fötu á hausnum. Ég kannaðist við líkamsbygginguna og komst að því mér til mikillar undrunar að þetta var Þórður Árnason, fyrrverandi gítarkennarinn minn, einnig betur þekktur sem skrítni, mjói kallinn í Stuðmönnum. Með fötuna á hausnum gekk hann smáspöl í áttina að mér og sneri svo snögglega við. Spurning hvort hann hafi séð í gegnum fötuna eða ekki. Leið hans lá á salernið og þegar hann kom út, hélt hann á fötunni (ótrúlegt en satt). Hann gekk að tveim stórum pottaplöntum og fór að vökva þær með vatni sem hann hafði greinilega náð í á klósettinu. Þetta er alveg stórskrítinn maður og er ég alltaf hálfhrædd við hann eftir að ég hætti hjá honum. Gott kennslubókardæmi um skrítinn mann á hættulega háu stigi.
Mamma mín er líka skrítin manneskja... sérstaklega undir áhrifum áfengis. Hún er það samt aldrei en núna um helgina var hún það. Hún fór í fertugsafmæli vinkonu sinnar og í veislunni var áfengi gefið. Hún drakk víst afar mikið af einhverri bollu og kom svo heim sauðadrukkin klukkan 4. Hún kom upp til mín í herbergið mitt, angandi eins og klósett á skemmtistað og sagði með tilheyrandi þvoglumælgi: ,,Særún, bollan sem ég drakk skipti alltaf um lit á svona hálftímafresti." Svo fór hún að sofa í sófanum. Um morguninn vaknaði hún og vissi ekki hvað stóð á sig veðrið og er búin að vera þunn þangað til í morgun. Spurning hvað hafi verið sett í bolluna. Hmm... ég verð að fá uppskriftina.
mánudagur, maí 03, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli