þriðjudagur, maí 06, 2003

Góðan og blessaðan daginn, lesandi góður.

Í staðinn fyrir að væla um það, hvað mér gekk illa í eðlisfræðinni í gær, þá ætla ég að sýna fram á það að óheppniskvótinn minn hlýtur bara að vera búinn fyrst að þessi atburður átti sér stað:

Þetta var bara venjulegur föstudagur, mín bara nýbúin í þýskuprófi. En svo..... “Gvöð minn góður og Guði sé dýrð í upphæðum!! Ég á eftir að taka passamynd af mér fyrir nýja passann minn!!!” Mín rauk niður í Fjörð, þurfti hvort eð er að kaupa hakk og lasanja-mix fyrir ömmu. Á vegi mínum urðu ofurkonurnar Katrín og Helga en þær voru að bíða eftir að geta snætt vinstri-grænar-pulsur sem var verið að gefa einhvers staðar í nágrenninu.
Þegar ég var búin að gera innkaupin, var mér litið á passamyndakassann sem var fyrir framan 10-11. Hann skein af ánægju við að sjá mig og ef fyrrverandi stærðfræðikennarinn minn (sem ég bölva á hverju kvöldi áður en ég fer að sofa) hefði ekki labbað framhjá, þá hefði ég pottþétt faðmað hann að mér (kassann sko).
Ég steig hægum skrefum inní herlegheitin og stakk 5 nýslegnum hundraðsköllum í rifuna. (Nei strákar, ekki þá rifu! Kjánaprik!) Þá stóð á skjá fyrir framan mig: Ýttu á gula takkann til að taka mynd. Ég gerði það og ætlaði svo að setja upp ofurlúkkið mitt en nei.... þá var bara búið að taka myndina!!!! Og á skjánum fyrir framan mig var eitthvert óþekkjanlegt og rangeygt fífl að ýta á takka. Þetta var þá svona kassi þar sem maður tekur myndina sjálfur. Allt í lagi með það en stóllinn sem ég sat í var e-ð bilaður og ég varð því að sitja í keng til að vera nú með höfuðið inn á myndinni. Mynd nr. 2 var ekki góð og sú þriðja var tekin. Hún heppnaðist bara ágætlega þrátt fyrir að það líti út fyrir að ég sé ekki með neinn háls eða axlir. Svo var bara að bíða eftir myndinni. Ég beið í svona 5 mínútur og fannst það nú fulllangur biðtími eftir einni mynd. Svo stóð bara á skjánum að það var búið að prenta myndina en engin var myndin í gatinu þar sem hún á að koma út. Ég fór þá að klóra mér í hausinum: “Tók einhver myndirnar??” Humm... nei það getur ekki verið, þær voru nú ekki það góðar! En kannski voru þær bara fastar í hólfinu. Ég teygði mig upp í gatið og viti menn... þarna voru þær!! En hvað ég var glöð! En abbabbabbababb kom í bátinn því myndarnar voru ekki þær einu sem voru fastar í gatinu... heldur einnig mín heilaga hönd! Ég togaði og togaði en ekkert gekk. Kassakonan í 10-11 var farin að hlæja að mér og þegar ég bað hana um að hjálpa mér, sprakk hún bara úr hlátri og sagðist ekki geta það núna. Þá var það eina í stöðunni, að nota lappirnar og spyrna af öllu afli í kassann og toga á móti. Litlir krakkar voru farnir að hópast í kringum mig og mér leið... já frekar kjánalega. Eftir svona þriggja mínútna tog, náði ég að losa mig. Ahh.... þetta var gott! En höndin mín heilaga var ekkert heilög lengur, heldur einkenndist hún af rauðleitum, þrútnum fingrum og blóðleysi. Það var því frekar hokinn haus sem yfirgaf Fjörðinn þennan föstudagseftirmiðdag.
Já, boðskapurinn með þessari hættulegu en jafnframt spennandi sögu er bara... að ekki dæma bókina af kápunni einni saman, og hana nú!...

Engin ummæli: