mánudagur, maí 02, 2005

Grilligrill!

Hendið nú grillinu út og takið fram grilltangirnar, karlpungarnir ykkar því það er komið sumar. Af því tilefnið er ég hér með nokkrar grilluppskriftir sem ég hef aldrei prófað og vantar tilraunadýr. Gott væri því ef þið gætuð látið mig vita hvernig smakkaðist því ekki ætla ég að reyna að gera þetta sjálf, ég með mína 5 þumalputta.

Grillaðir humarhalar með steinseljupestó og lime

1 stórt steinseljubúnt (helst ítalska steinselju)
2 dl ólífuolíu
1 stórt hvítlauksrif
½ - 1 tsk salt
4 – 6 lime
1 kg humarhalar í skel

Setjið steinseljublöðin í matvinnsluvél, fleygið stilkunum.
Hellið olíunni yfir á meðan vélin er í gangi.
Setjið hvítlauk og salt saman við. Hrærið þar til olían verður að grænu mauki. Klippið langsum eftir skelinni á hverjum humarhala. Skiptið steinseljupestóinu jafnt á milli humarhalanna. Grillið. Kreistið lime-safa yfir rétt áður en borið er fram.
Passar fyrir 4.

Grillaður sítrónulax í álbakka

800 gr. laxaflak, roðflett og beinlaust
smjör
safi úr 1 1/2 sítrónu
4 sítrónusneiðar
1 búnt söxuð steinselja, helst ítölsk (Hún verður bara að vera ítölsk, annars er allt ónýtt)
1 dl rjómi eða sýrður rjómi
½ dl þurrt hvítvín (má sleppa, en auðvitað verður að vera eitthvað fútt í þessu)
salt og pipar

Leggið saman tvo stóra álpappírsrenninga. Smyrjið álpappírinn með smjöri. Leggið laxaflakið á. Skerið flakið í fjóra bita, passið að skera ekki í gegn. Hellið sítrónusafanum yfir og setjið sítrónusneiðarnar í raufarnar þrjár. Sáldrið steinseljunni yfir. Saltið og piprið. Hellið rjóma og víni yfir og lokið álpappírnum þétt. Grillið í 10 – 12 mínútur. Gott með pastasalati og baguette.

Kjúklingabringur fyrir fjóra

4 skinnlausar bringur u.þ.b. 175 gr. hver.
Vafðar með beikoni og grillaðar í 4-5 mínútur á hvorri hlið.
4 bökunarkartöflur, skornar á sex báta, marineraðar á 2-3 klukkustundir og grillaðar í 15 mínútur.

Marinering:

3 dl ólífuolía
salt, 1 tsk, eða eftir smekk
5 hvítlauksrif, smátt söxuð eða rifin.
Ferskt timian, u.þ.b. 3 greinar
Grófmalaður svartur pipar, ¼ - ½ tsk

Borið fram með góðu salati og e.t.v. brauði.
-----

Þar hafið þið það! Einnig væri ágætt að þið mynduð einfaldlega bara bjóða mér í mat svo að ég gæti testað hvort þetta sé nú ekki ætt og svona. Efa það samt ekki því að óvenjumikið munnvatn er að myndast í munninum á mér sem hægt og sígandi lekur niður munnvikið sem síðan lendir ofan í lyklaborðinu. En það gerir ekki til því að nýja Disney-tölvan var að koma í hús sem þýðir bara eitt: nýtt blátt lyklaborð með teiknipenna!

Engin ummæli: