þriðjudagur, febrúar 24, 2004

Hvað gjöra skal þegar flensan hrjáir þig

Nú mun gleðigjafinn Jörundur segja ykkur frá niðurstöðum könnunar sem við gerðum í gær um það hvað gjöra skal í veikindum líkt og mínum í gær. Jörundur, ég sendi boltann yfir til þín:

Þökk þér. Ætíð er það vandamál mikið er eirðarleysi hrjáir unga fólkið í veikindum sínum. Það veit eigi hvað það gjöra skal, heldur horfir í kvistinn og stingur fingri í óæðri nasaholur. Nú mun ég koma með eilítinn upplýsingakafla sem utinam mun gagnast lesendum þessarar vefsíðu. Gjörið yður svo vel:

1. Að skoða plötusafn heimilisins er ætíð upplífgandi. Mikið var um plöturnar og fann ég hvern gullmolann á fætur öðrum. Gaman var þó að finna:

-Kaffibrúsakarlarnir
-Halli og Laddi - Fyrr má nú aldeilis fyrrvera
-Grand Funk - Railroad (umslag plötunnar var glansandi og í formi silfurpenings. Það var Jörundi að skapi.)
-Jakob Magnússon - Horft í roðann
-Mana Mouskouvi - Greatest Hits
-BG & Ingibjörg - Sólskinsdagur
-Hjálpum þeim


Hjá mér vaknaði þó furða er ég fann mér til mikillar furðu, þrjú eintök af plötunum Wish you were here og Dark side of the moon með honum Pink Floyd. Ei veit ég hver sá bleiki maður er en mig grunar að húsbóndinn á heimilinu hafi fengið sér eilítið of mikið af öli í glas er hann festi kaup á þær plötur.

2. Að brúka andlitsmálningu húsfreyjunnar er skemmtun mikil. Miklar gersemar leynast í kössum á víð og dreif um heimilið og ætíð eru þær gersemar nothæfar. Tilvalið er að þreifa sig áfram í þeim málum og nota ímyndunaraflið. Sem dæmi má nefna, fann ég einmitt rauðan varatúss og svartan augnbrúskalit frá áttunda áratugnum. Setti ég þetta á mitt andlit og viti menn, aldrei hefur Jörundur verið svo fínn og nú er hann tilbúinn fyrir hlöðuballið. Og drengir, ei vera feimnir við notkun tólanna. Þau eru ei tól djöfulsins líkt og móðir mín kær sagði eitt sinn.

3. Að íklæðast fötum húsfreyjunnar er fróðleg tilbreyting. Margur mölétinn klæðnaðurinn fannst í skáp húsfreyju en fínn var hann, ei er því hægt að neyta. Skótauið var þó eilítið óþægilegt og pinninn sem úr því stóð var ógjörlegt að taka úr. Frekar kýs ég sauðskinnsskóna. En kynngimagnaðar voru húðbuxurnar sem ég rak auga á. Mjúkar voru þær sem silki en á lit sem húð. Ekkert var þó skálmagat að neðan og rifnaði tauið við langar og ósnyrtar táneglur mínar. Gæðin voru ekki upp á marga fiska en glaður varð Jörundur er hann sá ullarpeysuna góðu. Aldrei bregst hún þótt götótt hún sé. Hrossabeislið bleika var þó afar furðulegt verð ég að segja. Ei var nokkur leið til að festa beislið á fákinn og tjull og blúndur voru mér til ama. Síðar barst það mér til eyrna að þarna voru komnar nærbrækur en svo daufur er ég ekki að trúa vitleysu þeirri.

Aldrei hef ég skemmt mér svo mikið líkt og gjörði ég í gær. Furða er hve mikil skemmtan það er að vera ófrískur.

Engin ummæli: