mánudagur, ágúst 11, 2003

YFIRSTÍGUN HRÆÐSLUNNAR!

Ég gerði heiðarlega tilraun áðan til að yfirvinna hræðslu mína á einni hræðilegustu og morðþyrstustu vofu Íslandssögunnar... Ljósabekkjadraugnum.
Ég gekk hægum skrefum í átt að draugahúsinu sem af óskiljanlegum ástæðum er kallað Fjarðarsól. Á hurðinni stóð með neongulum stöfum: Opið kl. 8-23:30 alla virka daga og kl. 10-18 um helgar. Draugurinn hefur svo sannarlega svartan húmor og notar að mínu mati, frekar nýstárlegar leiðir til að lokka til sín saklausa og sólþyrsta Íslendinga.
Konan sem sat við afgreiðsluborðið var í góðu gervi... var frekar mömmuleg, stórbeinótt og grá í framan eins og að hún væri að fara að æla og við hlið hennar lá nýjasta tölublaðið af Gestgjafanum. Það átti greinilega að vera táningasteik í matinn í kvöld! Á þessum tímapunkti gat ég ekki hugsað um annað en að hringja í mömmu. Ég náði þó að stama út úr mér: “A-a-a-a-a-áttu nokkuð-ð-ð lausan s-s-s-síma... nei ég meina tíma??” Afgreiðslukonan góndi á Gestagjafablaðið og byrjaði sleikja útum... “Ójá og ég á nóg af þeim! Hehehehe” Augun á mér ætluðu útúr augntotunum en ég náði að halda þeim inni. Ég borgaði heilar 690 kr. eftir að mér var bent á að fara í klefa 7... 7... það er óhappatala!!
Þegar í klefann var komið, blasti við mér bekkurinn... Viva 2000!! Ég afklæddist en hafði fötin nálægt mér ef ske kynni að ég... þyrfti nauðsynlega að fara. Bekkurinn fór í gang en áður en ég lagðist, kýldi ég vel og rækilega í glæru plötuna sem ég átti að liggja á. Hún virtist traust og ég lagðist því á hana... varlega. Ummm... þetta er gott og ekki eins slæmt og ég hélt!! En obbobbobb... ekki má gleyma aðalatriðinu... svörtu geirvörtudöllunum!!!! Maður má nú ekki brenna á þessum elskum!
Allt gekk vel og þegar ég var búin að liggja í svona 10 mín. heyrði ég eitthvað suð... suð sem ég kannaðist við. Þetta getur ekki verið.... GEITUNGUR!! Uppi varð fótur og fit þegar ég sá hann sveima inni í bekknum.... feitan, gulan og svartan! Hann settist á geirvörtudallana og suðaði eins og hann væri að reyna að segja eitthvað. En ég dó ekki ráðalaus, heldur greip annan geirvörtudallinn og lagði á hinn og kramdi geitunginn. Geitungamauk!! Hann hlýtur að hafa verið einn af mönnum Ljósabekkjadraugsins. Ég ákvað því að ljúka legu minni á bekknum, klæddi mig og hljóp út. Engin var afgreiðslukonan. Þegar út var komið, fattaði ég að geitungurinn var bara að reyna að segja mér að Ljósabekkjadraugurinn var á leiðinni... leiðinni að ná í hráefnið í táningasteikina sína.
Þrátt fyrir að ég komst ekki yfir hræðsluna á ljósabekkjum, er ég komin í sátt við geitungana. Þetta var þá ekki fýluferð eftir allt saman!!!

Engin ummæli: