þriðjudagur, júlí 22, 2003

NÝJASTI FJÖLSKYLDUMEÐLIMURINN!

Og það er albinóa-hamsturinn hennar systur minnar... sem á sér reyndar ekkert nafn. Hann var að lenda á svæðinu áðan í þessum svakaflotta Puma skókassa með loftgötum og öllu. Svo voru sætin í kassanum þakin ekta kálfsleðri og stýriborðið var úr marmara. Já, hann getur ekki kvartað hamsturinn sá. Hann kemur (því miður) í staðinn fyrir fyrrverandi forseta Íslands, Vigdísi a.k.a Viggu, en hún upplifði sársaukalausan dauðdaga nú á dögunum... hún kafnaði í svefni. Eitt kvöldið þegar systir mín ætlaði að fara með hana í göngutúr um Vesturbæinn, sýndi hún ekki mikil viðbrögð við fréttunum... reyndar ekki nein! Systir mín sá sér til mikillar mæðu að Vigga var dáin. Upp spratt þetta ógurlega öskur en annað eins hefur ekki heyrst á Hverfisgötunni síðan ég pommsaði niður stigann eitt Þorláksmessukvöld hér um árið.
Litla gerpið fékk að sofa í rúminu með mér og gat ég ekkert sofið þessa nótt því í órólegum svefni sínum, öskraði hún í sífellu: “Litli sæti hamsturinn minn!!!”
Um morguninn var síðan hátíðarborðhald í fínni stofunni þar sem Cheerios og möndlukaka var á boðstólnum. Systir mín fann gullkassa undir rúmi, skreytti hann með myndum af Viggu, setti bómul í kassann og skellti líkinu í. Svo otaði hún þessu framan í mig með tárin í augunum og sagði: “Kysstu Viggu bless!!” Og ég sem ætlaði aldrei að kyssa dauða lífveru!! Ég gat ekki annað gert en að smella einum blautum á stíft hamstralíkið til að gera litla skinnið ánægt. En sælan var öll hennar...
Síðan var jarðarförin. Fjölskyldan klæddi sig í svart og fór út í garð. Pabbi hafði smíðað lítinn kross í vinnunni, grafið holu við stjúpubeð og síðan var kassinn grafinn. Við kyrjuðum öll í kór Ó Jesú bróðir besti, við mikinn fögnuð nágranna og síðan var grátið...
Já þetta var falleg jarðarför. Ég veit að ég ætlaði að skrifa um nýjasta fjölskyldumeðliminn en hvernig er það hægt því við vitum öll að það er ekki hægt að bæta upp slíkan missi? Aaaa, það er gott að vera væminn á sumrin :D

Engin ummæli: