föstudagur, febrúar 14, 2003

Það er alveg rosalegt hvað hún móðir mín er mikil “Gróa á Leiti” inn í sér. Það gerðist nefnilega um daginn að mamma kom hlaupandi innan um dyrnar því að hún gat ekki beðið með að segja mér nýjasta slúðrið sem hún var enda við að heyra í vinnunni. Þegar hún var búin að kasta mæðinni í dágóða stund, gat hún loksins spýtt sögunni útúr sér en hún var á þennan veg:
,,Maðurinn sem er giftur konunni sem er sellóleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands sem býr á móti okkur, sem á einhenta barnið.... er SONUR MEGASAR!!!
Og við þessa sögu stóð mamma gjörsamlega á öndinni. Nágranni okkar... Sonur Megasar! Hann hlýtur bara að vera frægur... eða það hélt hún. Það er örugglega ekki mjög eftirsótt að vera stimplaður sem barn Megasar þótt að hann semji mjög góða tónlist og allt það. En fyrir þá sem ekki vita þá er Megas drykkfelldur maður mjög og hefur fallið oft fyrir Bakkusi á sinni ævi. Sem sagt...öl er böl. Þannig að mér fannst þessi saga ekki merkilega né spennandi eins og allar góðar slúðursögur ættu að vera. Mömmu fannst það voðalega skrýtið að mér fannst þetta ekki merkileg saga en það finnst mér nú um svo marga hluti. En annað gilti um sögu sem hún sagði mér einu sinni en hún var einhvern vegin svona:
,,Nágrannakona okkar, sem bjó fyrir ofan leigubílstjórann sem var alkahólisti sem dó síðan úr hjartaáfalli, konan sem pabbi hélt að væri ódýr hóra því að hún var alltaf með nýjan og nýjan róna inni hjá sér um helgar... væri dóttir konunnar sem labbar alltaf um í fjólubláum glanssnjógalla allan ársins hring og er talin vera eitt af “viðundrum Hafnarfjarðar!”
En þetta fannst mér vera mjög áhugavert því að þarna sá ég að sjaldan fellur eplið langt frá eikinni. Í þessu tilviki var eplið svolítið súrt.... æjæjæjæj!!
En ætlun mín með þessum pistli var að sýna fram á það að slúðursögur eru af hinu illa... ég sé að það tókst ekki en ég er nú bara mannleg!!

Engin ummæli: